reiðbrennandi

Það er alþekkt í tungumálum að orð breytist og brenglist vegna endurtúlkunar eða misskilnings. Iðulega er þetta vegna þess að málnotendur átta sig ekki á uppruna orðanna og reyna að tengja þau við önnur orð eða orðhluta sem þeir þekkja og skilja. Þetta eru kallaðar alþýðuskýringar og um þær hefur mikið verið ritað. Það íslenska dæmi um alþýðuskýringu sem oftast er vitnað til er líklega þegar þröskuldur breytist í þrepskjöldur. Fyrri liður orðsins er skyldur sögninni þreskja og orðið merkir sennilega í upphafi ‘þreskitré, þreskifjöl eða gangfjöl’ samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. En þessi uppruni liggur ekki í augum uppi, og til að reyna að fá eitthvert vit í orðið tengja málnotendur það við þrepþröskuldur er auðvitað eins konar þrep í dyrum – og skjöldþröskuldurinn er einhvers konar hlíf.

En það er samt ekki svo að allar breytingar á torskildum orðum verði til þess að gera þau skiljanlegri. Dæmi um það er breyting orðsins reiprennandi. Í pistli í Morgunblaðinu 1993 sagði Jón Aðalsteinn Jónsson: „Þegar ég var að alast upp í Reykjavík á þriðja og fjórða áratug aldarinnar, var algengt að segja um þann, sem kunni eða fór með eitthvað, t.d. kvæði, viðstöðulaust utanbókar, að hann kynni eða færi með það reiðbrennandi.“ Frá hljóðfræðilegu sjónarmiði er þetta eðlileg breyting – í venjulegu samfelldu tali er mjög lítill framburðarmunur á reiprennandi og reiðbrennandi. Enginn munur er á /b/ og /p/ í þessari stöðu, og /ð/ fellur oft að mestu eða öllu leyti brott í framburði samhljóðaklasa eins og þarna. Málnotendur þekkja orðið reið betur en reip(i), átta sig ekki á líkingunni, og greina orðið rangt.

Þótt þetta þýði ekki endilega að reiðbrennandi sé eitthvað skiljanlegri mynd fyrir þá sem nota hana en reiprennandi hefur hún lifað í málinu í a.m.k. hundrað ár en sárasjaldan komist á prent – einna helst þegar bent hefur verið á það í málfarsþáttum að hún sé röng. Gísli Jónsson nefndi hana t.d. nokkrum sinnum á níunda áratugnum í þáttum sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu. Þetta hefur hins vegar breyst á síðustu árum – á netinu má finna allnokkur dæmi um reiðbrennandi. Það er mjög skiljanlegt. Til skamms tíma var mestallt prentað mál prófarkalesið vandlega og orðmyndir sem voru taldar rangar strikaðar út, ef þær sáust í handritum. Nú á tímum nets og samfélagsmiðla getur hver sem er skrifað texta sem enginn fer yfir fyrir birtingu en allur heimurinn getur lesið – og þá kemur ýmislegt í ljós sem er okkur hulið í talmálinu.

Þess vegna er við því að búast að við sjáum nú miklu meira en áður af myndum á borð við reiðbrennandi – myndum sem jafnvel hafa lifað í málsamfélaginu áratugum saman en fáir hafa tekið eftir vegna þess að framburðarmunur þeirra og „réttu“ myndanna er svo lítill, og við höfum tilhneigingu til að heyra það sem við búumst við að heyra. Það er m.ö.o. vel hugsanlegt að fjöldi fólks hafi tileinkað sér myndina reiðbrennandi – og aðrar af sama tagi – á máltökuskeiði og notað áratugum saman án þess að aðrir tækju eftir því. Þegar þessar myndir fara að birtast í óhreinsuðu ritmáli er hulunni svipt af þeim og fólk áttar sig á því að þær eru til. Það er hins vegar ómögulegt að segja hvaða áhrif það hefur. Það getur eflt þær, vegna þess að þær verða sýnilegri en áður – en á hinn bóginn gerir sýnileikinn þær varnarlausari fyrir gagnrýni.