inngilding

Í dag lenti ég alveg óvart inni í umræðu á Facebook um orðið inngilding sem Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent á Menntavísindasviði, bjó til fyrir nokkrum árum sem þýðingu á inclusion. Það orð hefur oft verið þýtt sem án aðgreiningar og talað um skóla án aðgreiningar, samfélag án aðgreiningar o.fl. en það er dálítið stirt. Í þessari umræðu fannst mér koma fram dálítill misskilningur á eðli og merkingu orða.  Sumir þátttakendur í umræðunni eru ekki sáttir við orðið inngilding – segja að það skilgreini hugtakið sem um er að ræða ekki vel, sé gildishlaðið, nái ekki yfir hugtakið, og sé jafnvel orðskrípi.

Áðurnefndur misskilningur er mjög skiljanlegur út frá þeim hugmyndum okkar að orð eigi að vera „gagnsæ“ – segja sjálf hvað þau merki, þannig að fólk átti sig á merkingu þeirra þótt það hafi ekki heyrt þau eða séð áður. Því hefur lengi verið haldið að okkur að íslensk orð séu einmitt svona. Það er vissulega sannleikskjarni í því – en bara kjarni. Þótt orð feli oft í sér einhverja vísbendingu um merkingu þurfum við samt oftast að læra nákvæma merkingu þeirra sérstaklega. Og um leið og orð er komið í almenna notkun öðlast það sjálfstætt líf og hættir að vera háð uppruna sínum – gagnsæið hættir að skipta máli.

Það er auðvelt að benda á tugi og hundruð íslenskra orða sem merkja ekki það sem þau líta út fyrir að merkja, út frá samsetningu sinni og uppruna. En við tökum venjulega ekkert eftir því, vegna þess að við erum vön orðunum og vitum hvað þau merkja án þess að hugsa út í upprunann. Eins og ég hef oft nefnt finnst okkur ný orð oftast skrítin, óheppileg og jafnvel alveg ómöguleg – það þarf að venjast þeim og það tekur tíma. Það getur vel verið að það megi finna ýmislegt að orðinu inngilding – ég var ekkert sérlega hrifinn af því þegar ég sá það fyrst. En mér skilst að það sé komið í talsverða notkun og þess vegna væri ábyrgðarhluti að hafna því, nema fram kæmi eitthvert orð sem almenn sátt yrði um þegar í stað – svona eins og þegar þota leysti þrýstiloftsflugvél af hólmi á sínum tíma. Mér finnst bara ekki líklegt að svo verði.