Gagnsæi nýyrða

Það er gaman að velta fyrir sér nýjum orðum – hvernig þau verða til, hvernig viðtökur þau fá, og hvernig hægt er að koma þeim í almenna notkun. Hugmyndir okkar um (raunverulegt og ímyndað) gagnsæi íslenskunnar gera það að verkum að við viljum helst geta lesið merkingu orðs út úr myndun þess – ekki bara vísbendingu um merkinguna, og ekki bara hluta hennar, heldur alla merkinguna og ekkert umfram hana. Það getur verið hægara sagt en gert að koma henni allri fyrir í einu orði án þess að nokkuð annað fljóti með. En ekki nóg með það – það er hreint ekki víst að öllum sem nota orðið beri saman um merkingu þess í smáatriðum. Þess vegna er algengt að sumum þyki tiltekið nýyrði villandi eða ónothæft vegna þess að það afvegaleiði málnotendur.

Fyrir allnokkru var farið að nota orðið röskun og samsetningar af því um það sem á ensku heitir disorder – ýmiss konar frávik frá dæmigerðri hegðun, líkamlegu atgervi eða líkamsstarfsemi. Þetta er ágætt orð og ýmsar samsetningar með því vel heppnaðar og mikið notaðar. Ein þessara samsetninga er mótþróaþrjóskuröskun sem er þýðing á oppositional defiant disorder. Þetta er með lengstu orðum – 20 bókstafir, sjö atkvæði og fjórar rætur. Þarna má velta fyrir sér hvort nauðsynlegt sé að enska heitið skili sér svo nákvæmlega inn í íslenska orðið. Það er ekki langt á milli mótþróa og þrjósku merkingarlega séð, og e.t.v. hefði verið heppilegra að tala annaðhvort um mótþróaröskun eða þrjóskuröskun. En ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði og get ekki fullyrt um það.

Annað dæmi, talsvert ólíkt, má taka af heiti farartækis sem á ensku nefnist electric scooter. Það hefur undanfarið breiðst út eins og eldur í sinu hér á landi og því hefur spurningin um hvað eigi að kalla þetta fyrirbæri á íslensku iðulega komið upp. Upphaflega var þetta oft kallað rafmagnshlaupahjól vegna útlitslíkingar við gömlu hlaupahljólin. En bæði er þetta langt og stirt orð og svo finnst sumum orðhlutanum hlaup vera ofaukið – fólk hleypur ekki í neinum skilningi á þessum hjólum eins og á fótknúnum hlaupahjólum. Þess í stað virðist orðið rafskúta vera meira og meira notað um fyrirbærið. Það orð er auðvitað myndað með hliðsjón af enska heitinu – raf sem þýðing á electric og skúta sem hljóðlíking við scooter.

Slíkar hljóðfræðilegar aðlaganir eru auðvitað ekki einsdæmi og margar fullkomlega viðurkenndar, t.d. bæti sem er komið af byte. En ýmsum þykir rafskúta ótækt orð vegna þess að orðið skúta er vitanlega til í málinu, í gerólíkri merkingu. Það er samt ekki endilega næg ástæða til að hafna orðinu. Það eru fjölmörg dæmi í málinu um samhljóma orð – orð sem hljóma eins en merkja ekki það sama og eiga sér mismunandi uppruna. Eitt dæmi er orðið bakki sem getur merkt 'barmur, brún; hóll, hæð; aflangur skýjabólstur (við sjóndeildarhring); bakbrún á eggjárni' og 'grunnt fat, smáskutull (til að bera vistir á borð), bytta'. Fyrra orðið er af germanskri rót en það seinna komið úr latínu og jafnvel upphaflega keltneskt samkvæmt Íslenskri orðsifjabók.

Þessi tvö dæmi eru vissulega gerólík – annað er íðorð úr ákveðinni fræðigrein, hitt er orð úr almennu máli. Þau sýna samt bæði ýmis álitamál sem koma upp þegar verið er að finna íslensk orð fyrir ný hugtök og fyrirbæri. Þar hættir okkur til að vera bókstafstrúar og festa okkur í einhverjum reglum og viðmiðum sem við höfum einhvers staðar lært, eða hafa komið fram hjá einhverjum sem telja sig vita hvernig orðin eigi að vera. Það er ekkert að því að mismunandi skoðanir á nýjum orðum og mismunandi tillögur um orð komi fram, bæði frá sérfræðingum á því sviði sem um er að ræða og frá málfræðingum. En á endanum er það málsamfélagið sem sker úr um það hvaða orð lifa – og hvaða merkingu þau hafa.