Enska í strætó, taka tvö

Ég ferðast ekki með strætó nema einu sinni eða tvisvar á ári – þegar ég þarf að fara með bílinn minn á verkstæði uppi í óbyggðum. Í hvert skipti tek ég eftir því að ýmsar leiðbeiningar, sem m.a. varða öryggi, eru eingöngu á ensku. Ég fór með tveimur vögnum áðan og þetta gilti um þá báða. Ég hef oftar en einu sinni skrifað upplýsingafulltrúa Strætó um þetta og fyrir þremur árum sagði hann: „Samkvæmt öllum gæðastöðlum þá eiga að vera leiðbeiningar á íslensku í öllum bílunum. Við þurfum greinilega að láta yfirfara alla vagnana“ og bætti við að haft hefði verið samband við viðkomandi verktaka. Það hefur greinilega ekki skilað árangri.

Nú er auðvitað ekki um flóknar leiðbeiningar að ræða, og sjálfsagt finnst mörgum þetta smámál sem ekki taki því að nefna – „það skilja jú allir ensku“. En í fyrsta lagi er það ekki rétt að allir Íslendingar skilji ensku, og í öðru lagi er það bara ekki aðalatriði málsins. Aðalatriðið er að það á að vera sjálfsagt metnaðarmál að allar slíkar upplýsingar, ég tali nú ekki um mikilvægar öryggisleiðbeiningar, séu á íslensku. Það er í samræmi við íslenska málstefnu, og einnig málstefnu Reykjavíkurborgar – ég veit að Strætó er ekki borgarfyrirtæki en mér fyndist samt eðilegt að málstefnan væri þar höfð í heiðri.

Ég legg áherslu á að ég geri engar athugasemdir við að í vögnunum séu leiðbeiningar á ensku. Þvert á móti – mér finnst það sjálfsagt vegna þess að ekki skilja allir farþegar íslensku. En enskan má alls ekki koma í stað íslensku. Það er auðvitað ekki mikil fyrirhöfn eða kostnaður að prenta límmiða á íslensku og setja við hlið ensku miðanna eða fyrir ofan þá. Það er metnaðarleysi og til skammar fyrir fyrirtæki í eigu almennings að hafa þetta svona. Það þýðir ekkert fyrir Strætó að skjóta sér á bak við það að þetta séu vagnar í eigu verktaka – það væri auðvelt að setja í samninga ákvæði um að allar merkingar skuli vera á íslensku.