Að breyta máli
Ég hef ekki talað fyrir því að fólk breyti máli sínu og ég hef ekki gert það sjálfur, í þeim skilningi að ég segi eða skrifi eitthvað sem stríðir gegn máltilfinningu minni. En það er oft hægt að hagræða máli sínu þannig að það komi betur til móts við kynhlutleysi. Með óákveðnum fornöfnum nota ég t.d. oft sagnir sem taka þágufallsfrumlag ef hægt er að koma því við – segi öllum þykir í stað allir telja eða eitthvað slíkt. Ástæðan er sú að í þágufalli og eignarfalli fleirtölu eru öll kyn fornafna (og lýsingarorða) eins. Einnig nota ég oft fólk þar sem ég hefði áður notað menn, og mér finnst ekkert að því að tala um björgunarfólk og hestafólk – þetta eru ekki ný orð.
En þótt ég tali ekki fyrir breytingum skil ég vel að mörgum konum og kynsegin fólki finnist karlkynsmyndir fornafna og lýsingarorða, sem og orðið maður og samsetningar af því, ekki höfða til sín og vilji breyta málnotkun sinni. Það er hins vegar ekki einfalt – bæði af því að það er erfitt að breyta málnotkun sinni almennt séð, og einnig vegna þess að íslenskan er svo gegnsýrð af málfræðilegu kyni. Þegar fólk reynir að breyta málnotkun sinni er því hætta á að ýmiss konar ósamræmi og óvissa komi upp. En fólk á að vera frjálst að því að gera slíkar tilraunir með eigin málnotkun án þess að amast sé við því.
Ég legg hins vegar áherslu á að það er alveg ótækt að gagnrýna fólk fyrir að breyta ekki máli sínu – fyrir að tala það mál sem það er alið upp við og hefur tileinkað sér á máltökuskeiði. Þetta á við um ýmis tilbrigði sem oft eru kölluð „málvillur“, en einnig um það að nota karlkyn sem hlutlaust (ómarkað) kyn, og nota orðið maður og samsetningar af því í vísun til bæði karla og kvenna. Þetta er það mál sem við erum flest alin upp við, og það er ekki sanngjarnt að ætlast til að fólk sem er alið upp við að segja allir velkomnir breyti því, frekar en sanngjarnt er að ætlast til að fólk sem er alið upp við að segja mér langar breyti því.
Framansagt á við málfar og málnotkun einstakra málnotenda. Málnotkun hjá opinberum stofnunum, svo sem Ríkisútvarpinu og Alþingi, er svo annað mál sem mjög skiptar skoðanir eru um. Það hefur komið fram að unnið sé að því að færa lagamál í átt til kynhlutleysis, og mikið hefur verið skrifað um þá „tilraunastarfsemi“ með tungumálið sem ýmsum finnst Ríkisútvarpið stunda – þótt það sé raunar fjarri sanni að þar sé verið að útrýma kynhlutlausu karlkyni eða orðinu maður. Mörgum finnst að RÚV eigi að virða rétt þeirra sem vilja halda í „hefðbundna“ íslensku – en á móti má spyrja hvort réttur þeirra sem finnst karlkynið ekki höfða til sín sé þá enginn.
Þetta er snúið mál, en aðalatriðið í þessu er umburðarlyndi og virðing fyrir öðru fólki og málnotkun þess. Fólk sem vill hafna karlkyni sem hlutlausu kyni þarf að hafa í huga og sýna því skilning að við erum flest alin upp við að karlkynið hafi þetta hlutverk, og fólk sem vill halda í karlkynið sem hlutlaust kyn þarf að hafa í huga og sýna því skilning að ýmsum finnst karlkynið eingöngu vísa til karlmanna og þar með vera útilokandi. Það má ekki gerast að fólk verði flokkað eftir málnotkun hvað þetta varðar og annað hvort tilbrigðið verði talið villa eða óviðeigandi málnotkun.