umkringis
Í gær frétti ég af orðinu umkringis sem kennari hafði séð í ritgerð nemanda, í merkingunni 'umhverfis', og taldi nýyrði. Það hefði ég líka gert, enda hafði ég aldrei heyrt eða séð orðið svo að ég muni. Mér fannst það samt ekki fráleitt og fór að kanna þetta betur. Þá kom í ljós að umkringis er ævagamalt orð, a.m.k. frá 13. öld, og um það eru yfir 30 dæmi í fornu máli. Það virðist hins vegar vera mjög sjaldgæft á síðari öldum – kemur fyrir í þýðingu eftir Arngrím lærða frá 1618, en eftir það eru ekki heimildir um það fyrr en í Danskri orðabók með íslenzkum þýðingum eftir Konráð Gíslason frá 1851.
Á tímarit.is eru 20 dæmi um umkringis, dreifð yfir 20. öld og upphaf þeirrar 21. – það elsta frá 1909 og það yngsta frá 2005. Í þessum dæmum er merkingin sú sama, 'umhverfis', en það er athyglisvert að í nýjasta dæminu virðist þetta vera notað sem þýðing á surround – „Við erum nýlega búin að taka sýningarvélarnar í gegn og setja upp „umkringis“-hljóðkerfi“. Í Risamálheildinni er að finna eitt dæmi umfram þau sem eru á tímarit.is og er það frá 2016. Orðið er uppflettiorð bæði í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals frá 1920-1924 og í Íslenskri orðabók, en er ekki að finna í neinum safnanna á Málið.is.
Þetta orð virðist því hafa lifað í málsamfélaginu öldum saman án þess að komast nema einstöku sinnum á prent. Það er svo sem ekki einsdæmi, en spurning er hver uppruni þess er í ritgerð framhaldsskólanema árið 2021. Er þetta orð sem nemandinn hefur lært í málumhverfi sínu, eða hefur hann búið það til? Síðarnefndi möguleikinn er kannski líklegri – það má segja að þetta orð liggi nokkuð beint við út frá umkringja, kringum, hringinn í kringum og umhverfis. Í sjálfu sér er þetta miklu gagnsærra – og þá e.t.v. í vissum skilningi „betra“ – orð en umhverfis.
En það er samt ekki rétt að útiloka hinn möguleikann. Við getum borið þetta saman við kórónuveiruna sem við vitum að er úti í samfélaginu þótt hún láti lítið á sér bera tímunum saman – en svo skýtur hún upp kollinum allt í einu. Að vísu er kórónuveiran talsvert meira smitandi en orð, en það er samt ekki óhugsandi að nemandinn hafi lært orðið af foreldrum sínum. En hvað sem um þetta er held ég að við ættum að fagna þessu orði. Annaðhvort sýnir það hvernig orð geta leynst í málsamfélaginu tímunum saman án þess að hverfa endanlega eða það sýnir mállega nýsköpun hjá ungum málnotanda. Hvort tveggja er skemmtilegt og sýnir að íslenskan er sannarlega lifandi mál.