Nýlenska

Í umræðu um mál og kyn undanfarið hafa tilraunum til að draga úr karllægni íslenskunnar verið gefin ýmis nöfn – talað um „geldingu tungumálsins“, „afkynjun íslenskunnar“, „málvönun“ og kannski fleira. Hvað sem um þessar tilraunir er að segja er þetta orðfæri ekki heppilegt og virðist fremur valið til þess að hafa áróðursgildi en til að vera lýsandi. Ef þessi orð eru tekin bókstaflega mætti ætla að leitast væri við að útrýma málfræðilegu kyni úr íslensku, en það er auðvitað fjarri sanni. Það sem um er að ræða er tvennt – annars vegar að nota hvorugkynsmyndir fornafna og lýsingarorða í almennri vísun, í stað karlkyns, og hins vegar að nota starfsheiti í hvorugkyni eða kvenkyni í stað karlkyns.

Notkun hvorugkyns sem hlutlauss kyns í dæmum eins og öll velkomin í stað allir velkomnir stríðir gegn máltilfinningu margra enda erum við flest alin upp við að nota karlkyn í þessu hlutverki. Slík breyting er fjarri því að vera einföld í framkvæmd og það er skiljanlegt að hún mæti andstöðu. En það felst engin „afkynjun“ í henni. Málfræðileg kyn í íslensku eru þrjú eins og öllum er kunnugt – karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn. Fornöfn og lýsingarorð í hvorugkyni beygjast í fjórum föllum og tveimur tölum eins og þau gera í karlkyni og kvenkyni, og lýsingarorðin hafa auk þess bæði veika og sterka beygingu og þrjú stig í öllum þremur kynjum. Hvorugkynið er á engan hátt „minna kyn“ en hin tvö – stendur þeim alveg jafnfætis.

Þótt hvorugkynsorðin björgunarfólk, blaðafólk, fréttafólk, hestafólk og lögreglufólk og séu notuð í stað orða sem enda á -menn felst ekki í því nein „afkynjun“ eða misþyrming á tungumálinu – þetta eru rétt mynduð orð sem hafa verið til í málinu í 60-90 ár. Í Heimskringlu talar Snorri oftar um landsfólk en landsmenn, og hann talar líka um bóndafólk, byggðarfólk, býjarfólk, bæjarfólk, fátækisfólk, fjölkynngisfólk, hernaðarfólk, illþýðisfólk og innanlandsfólk – að ógleymdu mannfólkinu sem byggir kringlu heimsins. Orðin iðnaðarfólk og sjófólk voru notuð á 19. öld – og svo mætti lengi telja. Það er nákvæmlega ekkert að því að fólk sem svo kýs noti þessi orð, en öðrum er að sjálfsögðu frjálst að halda sig við hefðbundnari orð.

Tilraunir til að draga úr karllægni tungumálsins hafa verið kallaðar „nýlenska“ sem vísar til newspeak hjá George Orwell og er oft notað um það þegar málnotkun og hefðbundinni merkingu orða er meðvitað hnikað til í pólitískum eða hugmyndafræðilegum tilgangi. En það er a.m.k. ekki minni nýlenska að tala um afkynjun, geldingu og málvönun í þessu samhengi. Í fyrsta lagi eru orðin villandi – það er ekki um neina „afkynjun“ að ræða eins og hér hefur verið rakið. Í öðru lagi er dálítið hlálegt að réttlæta notkun málfræðilegs karlkyns í kynhlutleysi með því segja – réttilega – að málfræðilegt kyn sé allt annað en kynferði fólks, en nota svo orð sem vísa til hins síðarnefnda, og eiga þar við, í umræðu um það fyrrnefnda þar sem þau eiga alls ekki við.