Fræðimenn í vinsældakeppni?
Í morgun heyrði ég viðtal á Bylgjunni um efni sem mikið hefur verið til umræðu undanfarna daga – kynhlutlaust mál. Ég ætlaði eiginlega að leiða umræðu um þetta viðtal hjá mér en vegna þess að mér sýnist vera skotið á mig í því verð ég að gera nokkrar athugasemdir við það sem sagt var um einn þeirra hópa sem hafa talað fyrir auknu kynhlutleysi:
„Svo eru það fræðimenn […] sem að gera allt sem þeir geta til að afla sér vinsælda með því að aðhyllast þessa stefnu til þess að líta út fyrir að vera frjálslyndir í skoðunum. En þeir eru það ekkert endilega. Það gerir mann ekkert frjálslyndan í skoðunum að fara að nota einhver önnur fornöfn og strika út ákveðin orð.“
Ég ímynda mér að þessu sé ekki síst beint til mín, vegna þess að ég hef verið nokkuð áberandi í þessari umræðu. En ég get ekki annað sagt en þetta sé ómerkilegur málflutningur – að halda því fram að afstaða ónefndra fræðimanna stjórnist af því að þeir vilji afla sér vinsælda. Ég er ekki í neinni vinsældakeppni við einn eða neinn. Ég er kominn á eftirlaun og hef fengið allan þann frama í starfi og allar þær viðurkenningar sem ég gæti hugsað mér – og meira til. Ég þarf ekki á því að halda að hafa einhverja góða eða safna lækum.
Ég hef sagt frá því áður að fátt hefur haft meiri áhrif á viðhorf mitt og afstöðu til tungumálsins – og fólksins sem talar það – en þegar ég var fenginn til að taka sæti í dómnefnd nýyrðasamkeppni Samtakanna 78 árið 2015. Fram undir það þótti mér fornafnið hán bæði ljótt og allsendis óþarft, og umræða um karllægni tungumálsins byggð á misskilningi. En þarna kynntist ég fólki sem var það hjartans mál að geta talað um sjálft sig á móðurmálinu, og áttaði mig á því hversu miskunnarlaus jaðarsetning og útilokun það er að neita fólki um það.
Þess vegna hef ég talað fyrir því að fornafnið hán fái þegnrétt í málinu, og tók það inn í kennsluefni mitt og kennslu á sínum tíma. Ég er stoltur af því, og hundsama hvort það er túlkað sem frjálslyndi eða ekki. Þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um það að sýna fólki þá lágmarksvirðingu að gera því sjálfu, vinum þess og ættingjum, kleift að nota móðurmál sitt til að tala um það. Er það til of mikils mælst?