Tímar sólarhringsins

Þótt ég hafi haft atvinnu af því að kenna íslensku og skrifa um hana í fjörutíu ár er ég alltaf að uppgötva eitthvað nýtt í málinu. Í vor var hér til dæmis dálítil umræða um það hvernig við tölum um tíma sólarhringsins — í því er undarlegt ósamræmi sem ég hafði aldrei hugsað út í eða veitt athygli.

Við segjum að eitthvað gerist á daginn og daginn er þolfall eintölu. Hins vegar segjum við að eitthvað gerist á morgnana og á kvöldin, og þar er morgnana og kvöldin þolfall fleirtölu. Það er útilokað að fara eins með daginn og segja að eitthvað gerist *á dagana, og jafnfráleitt væri að segja að eitthvað gerist *á morguninn eða *á kvöldið.

Þá er nóttin eftir, og hún er í eintölu eins og dagurinn — við segjum að eitthvað gerist á nóttunni. En nóttunni er hins vegar ekki þolfall eins og í hinum orðunum, heldur þágufall - það er ekki hægt að segja *á nóttina. Reyndar er hægt að hafa nóttina í fleirtölu, eins og morgunninn og kvöldið, og segjast gera eitthvað á næturnar — og þá er ekki notað þágufall eins og í eintölunni á nóttunni, heldur þolfall eins og í hinum orðunum.

Ekki er allt búið enn. Við segjum líka að eitthvað gerist kvölds og morgna þar sem kvölds er eintala en morgna fleirtala. Það er útilokað að segja *kvölds og morguns eða *kvölda og morgna. Svo segjum við ýmist í gærkvöld eða í gærkvöldi þótt útilokað sé að segja *í kvöldi, eða *í gærmorgni; og við tölum um gærmorgun, gærdag og gærkvöld en sjaldan um gærnótt.

Ég hef ekki hugmynd um hvernig stendur á þessum mun. Auðvitað er ekkert „rökrétt“ í því að þessi fjögur orð sem virðast vera alveg hliðstæð hagi sér á mismunandi hátt, bæði hvað varðar tölu og fall. En eins og ég hef oft nefnt er tungumálið ekki fullkomlega rökrétt, og á ekki að vera það. Svona óskiljanlegt ósamræmi er einmitt eitt af því sem gerir málið svo skemmtilegt.