Skildi
Nýlega rakst ég á texta frá 1925 þar sem talað er um „skildin utan á búðirnar“. Ég hélt fyrst að skildin væri prentvilla fyrir skiltin en fór samt að skoða málið nánar. Þá kom í ljós að skildi er flettiorð í Íslenskri orðsifjabók í merkingunni 'skilti, nafnspjald' og sagt vera nýyrði í nútímamáli, tengt skjöldur. Orðið er einnig að finna í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 og meira að segja í Íslenskri orðabók sem tekur mikið af orðum frá Blöndal þótt þau hafi ekki verið notuð í marga áratugi.
Á tímarit.is er að finna örfá dæmi um skildi, það elsta sem ég fann er frá 1899 og það yngsta frá 1945. Þetta nýyrði virðist því aldrei hafa náð neinu flugi, heldur hefur skilti verið notað í staðinn. Það er tökuorð úr dönsku frá 19. öld, skylt skjöldur. Bæði orðin, skildi og skilti, eru því af sömu rót þótt leið þeirra inn í íslenskuna sé ólík - annað tökuorð en hitt íslensk nýmyndun. Mér finnst skildi fallegra orð en úr þessu verður það varla tekið upp í staðinn fyrir skilti.