Glöggvi

Ég var spurður um það hvort til væri eitthvert nafnorð um þann eiginleika að vera glöggur. Fyrirspyrjandi sagðist hafa heyrt orðið talnaglöggvi nýlega og kom það spánskt fyrir sjónir. Ég hef aldrei heyrt orðið glöggvi eða samsetningar af því og það finnst hvorki í orðabókum né Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Hins vegar fann ég tvö dæmi um það á tímarit.is, bæði frá 1913.

Í tímaritinu Birkibeinum stendur: „Þessar síðasttöldu bækur eru hver annari ágætari, og bera allar vott um óþreytandi elju höf., [...] og um frábæra glöggvi, að vinna svo glögg og áreiðanleg verk úr svo varhugaverðu verkefni.“ Í upptalningu á „mállýtum“ í blaðinu Reykjavík eru m.a. nefndir: „Rangmyndaðir nýgervingar (myndaðir móti eðlislögum málsins) t. d. gleggni (í st. f.: glöggleiki, glöggvi).“

Einnig fann ég dæmi um samsetningarnar mannglöggvi í Prestafélagsritinu 1921, fjárglöggvi í Prentaranum 1936 og Morgunblaðinu 1972, og veðurglöggvi í Vikunni 1940 og Heimskringlu 1941. Þessi orð eru ekki heldur í orðabókum, en Ritmálssafn Orðabókar Háskólans hefur eitt dæmi um síðastnefnda orðið, úr bókinni Frá Suðurnesjum frá 1960. Örfá dæmi um þessi orð, sem og talnaglöggvi, er að finna á netinu.

Það eru nokkur dæmi í málinu um að nafnorð séu mynduð af lýsingarorðum með viðskeytinu -vi. Meðal þeirra eru myrkvi, af myrkur, klökkvi, af klökkur, fölvi, af fölur, dökkvi, af dökkur, þröngvi, af þröngur, og vökvi, af vökur sem er reyndar varla notað í nútímamáli. Orðið glöggvi er sem sé alveg eðlileg orðmyndun og ekkert við það að athuga að nota það sem nafnorð um það að vera glöggur.

Það þarf þó að huga að kyni orðsins. Orð sem enda á -i geta formsins vegna verið hvaða kyns sem er, en -vi-orðin sem nefnd eru hér að framan (myrkvi o.s.frv.) eru öll karlkyns. Orðið glöggvi og samsetningar af því virðist hins vegar vera haft í kvenkyni í öllum heimildum og sjálfsagt að halda því, enda ýmis hliðstæð orð í kvenkyni, t.d. göfgihöfgi o.fl.