Eftir að lesa

Um daginn var ég spurður að því hvort notkun á samtengingunni eftir að væri að breytast. Nú sjást oft og heyrast setningar eins og ég fór í skólann eftir að borða morgunmat, hann fékk rauða spjaldið eftir að brjóta á sóknarmanni, ég öskraði eftir að stíga á nagla, o.s.frv. Fyrirspyrjandi taldi að þetta væri nýjung – í stað nafnháttar af aðalsögninni hefði hjálparsögnin hafa í nafnhætti og lýsingarháttur þátíðar af aðalsögninni áður komið á eftir eftir að, þannig að sagt hefði verið ég fór í skólann eftir að hafa borðað morgunmat, hann fékk rauða spjaldið eftir að hafa brotið á sóknarmanni, ég öskraði eftir að hafa stigið á nagla, o.s.frv.

Ég verð að játa að ég stóð á gati – hafði aldrei leitt hugann að þessu og aldrei tekið sérstaklega eftir þessari setningagerð. Þegar ég hugsa út í það finnst mér setningarnar með hafa eðlilegri, en hinar finnst mér samt alveg í lagi og myndi ekki gera athugasemdir við þær í yfirlestri eða kennslu. Það er erfitt að athuga hvort setningagerðin án hafa er nýleg í málinu – ef leitað er að eftir að t.d. á tímarit.is eða í Risamálheildinni kemur mikill fjöldi dæma af öðrum toga. Fyrirspyrjandi velti því fyrir sér hvort þarna kynni að vera um ensk áhrif að ræða (after eating breakfast o.s.frv.) en þar er þó ekki notaður nafnháttur þannig að mér finnst það ekki endilega trúlegt.