Lenging sérhljóða til áherslu

Ég fór að velta fyrir mér því stílbragði, eða hvað á að kalla það, að lengja sérhljóð í atviksorðum og lýsingarorðum til áherslu – og endurtaka viðkomandi bókstaf í riti, eins og í þessum dæmum af netinu (feitletrun mín):

 • Við eigum svooo margt fallegt fyrir öll tilefni, hátíðleg sem og hversdags.
 • Mér finnst það alveg feeerlega ósanngjarnt að við sveitafólkið skulum ekki sitja við sama borð og borgarbúar.
 • Gaaasalega finnst mér ósmart að búa til kjötbollur með ritzkexi og pakkasúpu.
 • Til sölu á mjööög góðu verði!
 • Hádegisverður og góður félagsskapur, dagurinn verður bara svo miiiklu betri.
 • Ekkert smááá gaman!
 • Naglalökkin frá Artdeco eru svo fííín!
 • Auðvitað missti ég svo einn stærri! Án djóks, hann var stóóór!
 • hmm, ohh fúúúlt, vitið þið við hvern maður getur talað útaf svona.
 • Fuuullur glervasi af jólakúlum!
 • Mikið er sonur ykkar annars sææætur.
 • mér finnst hann of hreistraður til að borða roðið, venjulega, en það er svo leiiiðinlegt að hreinsa!

Þetta er bundið við óformlegt mál og þess vegna erfitt að kanna það í prentuðum heimildum. Því er erfitt að segja hvort þessi sérhljóðslenging er nýleg aðferð til áherslu eða hefur verið tíðkuð lengi. Fyrir tilviljun rakst ég þó á dæmi frá 1958 í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans: „ekki er hann svo sææætur, blessað barnið. eins og fuglahræða móts við hina“, úr Ástarsögu eftir Steinar Sigurjónsson.

Ég fann dæmi um öll sérhljóðin nema au, en kannski var það bara vegna þess að ég mundi ekki eftir neinu algengu atviks- eða lýsingarorði með au auk þess sem það er ekki endilega eðlilegt að tákna lenginguna með því að rita mörg u. En það mætti búast við því að það væri eingöngu hægt að lengja þau sérhljóð sem eru löng í venjulegu tali, eins og í svo, mjög, smá, sætur o.fl., en svo er ekki – stuttu sérhljóðin lengjast líka, eins og í ferlega, miklu, fúlt og fullur.

Annað er að stundum gerbreytir lengingin merkingu orðsins. Ef sagt er um konu hún er svolítið lík mömmu sinni merkir það að hún hafi einhvern svip af móðurinni. En ef sagt er hún er svooolítið lík mömmu sinni merkir það að hún er nákvæm eftirmynd móður sinnar. Ef sagt er hann er rosalega skemmtilegur merkir það að hann sé mjög skemmtilegur, en ef sagt er hann er rooosalega skemmtilegur getur það (með ákveðnum málrómi og líkamstjáningu) merkt að hann sé hundleiðinlegur.