Ferli

Það er mikið tekið þessa dagana að segja að mál sé í ferli. Þetta getur hvort heldur verið þágufall af hvorugkynsorðinu ferli og karlkynsorðinu ferill en um þau segir Málfarsbankinn:

„Ekki er að jafnaði átt við það sama með orðunum ferill og ferli.

  1. Orðið ferill merkir venjulega: slóð, braut, leið, rás, skeið, sbr. starfsferill, æviferill o.fl. Orðið getur líka átt við um línu sem dregin er á milli punkta.
  2. Orðið ferli merkir venjulega: atburðarás, framvinda, röð viðburða.“

Trúlega er um síðarnefnda orðið að ræða þegar talað er um að eitthvað sé í ferli. Hvorugkynsorðið er ekki gamalt – það er t.d. ekki að finna í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 og elstu dæmi um það í síðarnefndu merkingunni eru frá seinni hluta síðustu aldar.

En það er miklu yngra að tala um að mál séu í ferli. Elsta dæmi sem ég finn um það er frá 2002, en dæmum fjölgar mjög fljótt. Á tímarit.is má finna mikinn fjölda dæma frá síðustu 15 árum um mál sem eru í ferli, fara í ferli, sett í ferli o.s.frv. Mun sjaldnar er þess getið að ferlinu sé lokið.

Óneitanlega virðist þetta samband stundum notað til að drepa málum á dreif. Í pistli í Morgunblaðinu 2008, þegar sambandið var að fara á flug, segir t.d.: „Málið er í ferli. Fyrir mig er ferli yfirleitt hringur. Er málið þá komið í hring?“

Það er spurning.