Að fljúga farþegum
Nýlega sá ég á Facebook heilmikla umræðu um setninguna „Tveim konum var flogið til Íslands“ sem hafði komið fyrir í fréttum. Hliðstæðar setningar hafa margoft verið ræddar áður í ýmsum málfarshópum. Mörgum finnst setningar af þessu tagi ótækar og segja að aðeins flugvélum (eða annars konar loftförum) sé flogið, ekki fólki. Í anda hefðbundinnar íslenskrar málfarsumræðu er tækifærið svo notað til að snúa út úr setningunni og segja fimmaurabrandara.
Það er vel þekkt víða um land að fólki sé flogið, og á sér langa hefð. Elsta dæmi sem ég fann um það í fljótu bragði var í Morgunblaðinu 1954: „Um klukkan hálf ellefu í gærkvöldi kom önnur flugvél til Keflavíkurflugvallar, sótti farþegana og flaug þeim heim til sín, til Vestmannaeyja.“ Í Frjálsri þjóð 1960 segir „Þeim var flogið til Washington í sérlegri flugvél“. Í Morgunblaðinu 1972 segir „Var fuglunum þar skipað um borð í vöruflutningaflugvél, sem flaug þeim síðan til Englands ásamt nær 300 öðrum gæludýrum“ – og svo mætti lengi telja.
Vitanlega er það rétt að talað er um að fljúga flugvél. En það táknar ekki að rangt sé að tala um að fljúga farþegum. Fjölmörg fordæmi eru fyrir því að sama sögnin taki andlög sem hafa mismunandi merkingarvensl við sögnina. Í þessu tilviki er nærtækt að bera fljúga saman við aka. Það er talað um að aka bíl, en líka aka farþegum án þess að fólki þyki það athugavert. Sama er að segja um keyra nema hún tekur þolfall – talað er um að keyra bíl og keyra farþega. Í máli sumra, þ. á m. mínu, tekur keyra reyndar þágufall í seinna tilvikinu – ég tala um að keyra bílinn en keyra farþegunum.
En það er athyglisvert að fólk sem hnýtir í setningar eins og fljúga farþegum minnist aldrei á það – og hugsar sennilega ekki út í það eða áttar sig ekki á því – að til skamms tíma var sögnin fljúga áhrifslaus og tók ekki með sér neitt andlag, aðeins frumlag. Fuglar flugu, og örvar flugu, en enginn flaug fuglum eða örvum eða neinu öðru. Það var ekki fyrr en eftir tilkomu flugvéla í byrjun 20. aldar að þörf skapaðist á að láta fljúga fá andlag. Elsta dæmi sem ég hef fundið um það er í Dagsbrún 1917: „Vélinni var flogið í 1500 til 2000 metra hæð.“ Þessa merkingu sagnarinnar er ekki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924.
Það er því ljóst að báðar setningagerðirnar, fljúga flugvél og fljúga farþegum, eru nýjungar í málinu, báðar frá 20. öld, þótt sú fyrrnefnda eigi sér vissulega eitthvað lengri sögu, sé kannski 30 eða í mesta lagi 40 árum eldri. En þótt seinni gerðin sé sjaldgæfari en hin er hún samt málvenja margra og á sér áratuga sögu, þannig að það væri fráleitt að gera upp á milli þessara setningagerða. Báðar hljóta að teljast rétt mál.