Réttilega svo

Nýlega heyrði ég setningu sem fékk mig til að velta fyrir mér hvort ný setningagerð væri að koma inn í málið. Setningin var einhvern veginn svona: „Þetta var bjartsýnt plan, eiginlega heimskulega svo.“ Það sem mér fannst athyglisvert voru síðustu tvö orðin, heimskulega svo, þar sem endað er á háttaratviksorði (sem oftast endar á -lega) og svo. Þetta er algengt í ensku, þar sem setningar enda oft á and rightly so, and rightfully so, and thankfully so o.s.frv., en mér fannst þetta hljóma frekar ókunnuglega í íslensku.

Ég fór þess vegna að skoða þetta en það er er ekki auðvelt að leita að slíkum dæmum í rituðum textum svo að trúlegt er að ýmislegt hafi farið fram hjá mér. Á tímarit.is og í Risamálheildinni hef ég þó fundið slæðing af dæmum, einkum frá þessari öld. Atviksorð sem ég hef fundið í þessum dæmum eru auðveldlega, heimskulega, langsamlega, maklega, óbærilega, óhjákvæmilega, réttilega, skemmtilega, skiljanlega og syndsamlega. Langflest dæmin, líklega helmingur af heildinni, eru um réttilega.

Elsta dæmi sem ég fann um þessa setningagerð í íslensku er hálfrar aldar gamalt, í Munin 1971, þar sem segir „Hinsvegar lifir Guðjónsson þetta allt af og réttilega svo“. Í Tímanum 1983 segir „Þessi keppnisgrein hefur Íslendingum lengi verið hjartfólgin og skiljanlega svo“. Í DV 1986 segir „Stjórn Suður-Afríku hefur lengi – og réttilega svo – legið undir gagnrýni“. Í Morgunblaðinu 2002 segir „Og til að gera langa sögu stutta uppfyllir Yoshimi Battles The Pink Robots allar þær miklu væntingar, og auðveldlega svo“. Í DV 2009 segir „ríkisstjórnin verður afskaplega óvinsæl, næstum óbærilega svo“.

Ég fór að velta fyrir mér hvernig væri hægt að orða þessi dæmi á annan hátt og komst að því að það væri ekki alltaf alveg einfalt. Dæmið sem ég nefndi í upphafi mætti umorða sem Þetta var bjartsýnt plan, eiginlega heimskulega bjartsýnt; dæmið úr Tímanum 1983 gæti verið Þessi keppnisgrein hefur Íslendingum lengi verið hjartfólgin, og það er skiljanlegt; dæmið úr DV 1986 gæti verið Stjórn Suður-Afríku hefur lengi legið undir gagnrýni, og á það skilið; dæmið úr DV 2009 gæti verið ríkisstjórnin verður afskaplega óvinsæl, næstum óbærilega óvinsæl; o.s.frv.

Mér finnst lítill vafi leika á því að þessi setningagerð sé tilkomin fyrir ensk áhrif. En eins og dæmin hér á undan sýna hefur íslenska ekki neina eina aðferð til að umorða hana, og það er væntanlega ein ástæðan fyrir því að fólk grípur til hennar – hún er þægileg og einföld og umorðunin verður oft lengri og flóknari. Spurningin er hins vegar hvort okkur finnst enskur uppruni næg ástæða til að amast við henni, eða hvort við teljum hana eðlilega og gagnlega viðbót sem auðgi málið. Það verður hvert og eitt ykkar að meta.