Skýrsla um kynhlutlaust mál
Ég var að lesa skýrslu Íslenskrar málnefndar um kynhlutlaust mál og varð óneitanlega fyrir nokkrum vonbrigðum. Þar segir í upphafi:
„Í íslenskri málstefnu 2021–2030 sem nú er í vinnslu er áhersla lögð á að gera öllum sem tala íslensku jafn hátt undir höfði og gæta þess að málnotkun sé ekki útilokandi og að nota orð og orðfæri um mismunandi þjóðfélagshópa sem fólk í þeim hópum kýs sjálft en það getur þýtt að leggja þurfi af viðtekið orðfæri sem ekki er lengur viðeigandi, eða er meiðandi. Tungumálið er þáttur í sjálfsmynd einstaklinga og skiptir því miklu máli fyrir hvern og einn að vera ekki skilgreindur sem hluti af einhverju sem hann vill ekki vera. Ákveðnir hópar, einkum kynsegin fólk og femínistar, hafa barist fyrir auknu jafnrétti í málnotkun og aukinni notkun kynhlutlausra orða. Mikilvægt er að hafa í huga að kyn persónufornafna getur haft áhrif á sjálfsmyndina og það getur verið særandi að vera skilgreindur eftir kyni sem viðkomandi telur sig ekki tilheyra. Barátta þessara hópa fyrir kynhlutlausri málnotkun fellur því að markmiði málstefnunnar um að tungumálið sé ekki útilokandi.“
Undir þetta má taka heils hugar, en því miður er þessu sjónarmiði ekki fylgt eftir í skýrslunni. Þar er slegið úr og í og ekki hvatt til þess að stefna að kynhlutlausu máli. Vissulega er rétt að það er fjarri því að vera einfalt og því fylgja ýmis vandkvæði. En það er ekki næg ástæða til að gefast upp fyrir vandamálinu. Ég hef ævinlega tekið málstað íslenskunnar og hvatt til þess að hún sé notuð alls staðar þar sem þess er kostur. En þótt íslenskan sé mikilvæg eru málnotendurnir mikilvægari. Réttur tungumálsins er mikill en réttur málnotendanna er meiri. Þess vegna hefði ég vonað að í skýrslu málnefndarinnar yrði tekin eindregnari afstaða með rétti málnotenda.
En reyndar held ég að málnotendur séu komnir langt á undan málfarsyfirvöldum að þessu leyti. Mér fannst t.d. áberandi í kosningastefnuskrám flokka og í kosningaauglýsingum hversu mikið var um að notað væri hvorugkyn í stað karlkyns, og ég held að fyrir mörgu ungu fólki sé það bara sjálfsagt mál. Vitanlega verður alls konar ósamræmi og óreiða, og hugsanlega einhver misskilningur, á meðan breytingin gengur yfir – en það er fráleitt að láta eins og það sé einsdæmi. Þannig er það með allar breytingar og öll tilbrigði í málinu. Það er líka sagt: „Ef kynhlutlaust mál yrði regla án undantekninga skapast augljóslega hætta á að málfar fyrri kynslóða og einnig þorra núlifandi manna verði torskildara í framtíðinni.“ Sama má segja um allar málbreytingar. Við misskiljum ýmislegt í gömlum textum vegna þess að við áttum okkur ekki á því hvernig málið hefur breyst. En það er enginn heimsendir.