Íslensk málstefna 2021-2030
Íslensk málstefna 2021-2030 hefur nú verið birt á vef Íslenskrar málnefndar. Ég fékk drög að stefnunni til umsagnar í vor og lýsti ánægju með þau að flestu leyti og sagði: „Drögin eru mjög í þeim anda sem ég hef talað fyrir undanfarin ár og ég held að ég geti skrifað undir nánast hverja einustu efnisgrein í þeim.“ En hélt svo áfram:
„Þó er einn galli á drögunum sem mér finnst bráðnauðsynlegt að bæta úr – grundvallaratriði sem er skautað algerlega fram hjá og „glimrer ved sit fravær“. Það er málstaðallinn. Það orð (eða orðið staðall) kemur alls ekki fyrir í drögunum, og aðeins á einum stað er vikið að réttu máli og röngu. Í ljósi þess að íslensk málfarsumræða hefur í marga áratugi snúist að verulegu leyti um þessi hugtök, og gerir jafnvel enn, er óhjákvæmilegt að um þau sé fjallað ítarlega í íslenskri málstefnu. Annars heldur hin ófrjóa umræða áfram óbreytt, málinu til skaða. [. . .]
Ég er ekki andvígur því að einhver málstaðall sé til. Þvert á móti – það er mikilvægt að hægt sé að vísa til einhvers viðmiðs um vandað, formlegt mál. En það viðmið verður að vera raunhæft og má ekki ganga í berhögg við málkennd umtalsverðs hluta málnotenda. Það má heldur ekki vera einstrengingslegt, heldur verður að rúma mismunandi málvenjur. Oftast eru engin skynsamleg rök fyrir því að taka eina málvenju fram yfir aðra. Málið bíður engan skaða af tilbrigðum í framburði, beygingarmyndum, fallstjórn, merkingu orða o.s.frv.
Ég hef oft rætt þann vanda sem við stöndum frammi fyrir með íslenskan málstaðal – að okkur skortir vettvang til að ræða hann og breytingar á honum, og aðferðir til að gera breytingar á honum. Ég veit ekki hvar á að taka á þessu ef ekki í íslenskri málstefnu. Vitanlega verða einstök atriði málstaðalsins ekki hluti af málstefnunni, en hún verður að leggja einhverjar meginlínur um hann og tryggja að hann verði lagaður að þörfum samtímans. Það er forsenda fyrir því að þessi annars ágæta málstefna nýtist eins vel og hún á skilið og nauðsynlegt er.“
Þetta sagði ég í athugasemdum í vor. Í endanlegri gerð málstefnunnar er málstaðallinn vissulega nefndur, og tekið undir það að hann hljóti að taka breytingum, en við það situr. Ekkert er sagt um hvernig staðallinn eigi að breytast, hvernig eigi að standa að breytingum á honum, og hvernig hann eigi að vera. Ég er hræddur um að það leiði til þess að við hjökkum í sama farinu og mér finnst mjög slæmt að Íslensk málnefnd skuli ekki hafa haft vilja eða kjark til að taka ákveðnar á þessum málum. Nú sitjum við uppi með þessa stefnu – eða stefnuleysi – næsta áratug.
Annað sem ég sakna í málstefnunni er ítarleg umfjöllun um stöðu ensku í íslensku málsamfélagi. Við þurfum að viðurkenna að enskan er komin til að vera í samfélaginu og það er óhjákvæmilegt að hún verði hér fyrirferðarmikil í framtíðinni, samhliða íslensku, en það þarf að marka henni bás. Við hvaða aðstæður er eðlilegt eða óhjákvæmilegt að nota ensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann íslensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann ensku? Hvernig geta íslenska og enska átt friðsamlegt og gott sambýli í málsamfélaginu?
Þriðja atriðið sem vantar í málstefnuna er umræða um kynhlutlaust mál – það er ekki nefnt einu orði sem er furðulegt og raunar alveg fráleitt í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið um það upp á síðkastið og mun örugglega halda áfram. Skoðanir um kynhlutlaust mál eru vissulega mjög skiptar, og erfitt að ná þar nokkurri sátt, en það réttlætir ekki að málið sé ekki nefnt. Vandinn hverfur ekki þótt honum sé sópað undir teppið. Ný skýrsla sem Íslensk málnefnd hefur látið gera um kynhlutlaust mál (og ég hef ýmsar athugasemdir við) er engin afsökun fyrir því að sleppa því algerlega úr málstefnunni.
Niðurstaða mín er sú að Íslensk málstefna 2021-2030 sé frjálslynd og víðsýn og að flestu leyti mjög góð – svo langt sem hún nær. Hún nær bara alltof skammt og hætt er við að áhrif hennar verði minni en skyldi vegna þess að hún fer sums staðar eins og köttur kringum heitan graut, tekur ekki á viðkvæmum málum og ágreiningsefnum og sópar ýmsum vanda undir teppið. Það er mjög dapurlegt.