Viðskeyttar sagnmyndir

Í boðhætti er annarrar persónu fornafnið þú venjulega hengt á sagnstofninn og tekur þá ýmsum breytingum. Í stað ú kemur u, og í stað þ kemur ð, d eða t eftir lokasamhljóði (eða samhljóðasambandi) stofnsins – kalla-ðu, seg-ðu, far-ðu; kom-du, tel-du, kenn-du; gleyp-tu, rek-tu, vit-tu. En slík viðskeyting er ekki bundin við boðhátt, heldur getur líka gerst í öðrum setningagerðum þar sem annarrar persónu fornafnið fer á eftir sögninni, bæði í spurningum eins og fórstu þangað?, sagðirðu eitthvað?, og setningum sem hefjast á öðrum lið en frumlagi, eins og áðan varstu leiðinlegur, þangað skaltu fara, núna gerðirðu mér grikk.

Í boðhættinum bætist viðskeytta fornafnið við beran stofn sagnarinnar en í hinum tilvikunum bætist það aftan við beygingarendingar tíðar, háttar, persónu og tölu. Þessar myndir eru yfirleitt ekki nefndar í kennslubókum og handbókum, en þær eru hafðar með í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Þar eru þær nefndar spurnarmyndir sem er ekki að öllu leyti heppilegt vegna þess að þær eru ekki bara notaðar í spurningum eins og áður segir, heldur líka í öðrum setningagerðum sem hefjast ekki á frumlaginu.

Í talmáli er viðskeyting fornafns ekki bundin við aðra persónu eintölu. Fleirtölumyndinni þið er líka skeytt við sögnina – fariði(ð) burt!, fóruði(ð) heim?. Sama má segja um þriðju persónu fornöfn, bæði í eintölu og fleirtölu – fórann burt?, varún heima?, erða(ð) satt?, gátuðau þetta?. Sama máli gegnir ef aukafallsfrumlag fer á eftir sögninni – vantarðig eitthvað?, varðér kalt?, finnstðeim gaman?. En slík viðskeyting er ekki bundin við fornöfn í frumlagshlutverki, heldur er almenn framburðarregla þegar kerfisorð (fornöfn, forsetningar, atviksorð) sem byrja á þ- eða h- standa í áherslulausri stöðu.

Þess vegna er yfirleitt ekki litið svo á að viðskeyttar myndir eins og fórann, varún o.s.frv. séu sérstakar orðmyndir, beygingarmyndir sagna, heldur tvö orð sem renna saman í framburði og því er viðskeyting annarra fornafna en þú yfirleitt ekki sýnd í ritmáli. Eina undantekningin er fornafn annarrar persónu fleirtölu, þið, þar sem viðskeyttu myndirnar koma stundum fyrir í riti. Vegna þess að sagnir enda á í annarri persónu fleirtölu fellur ð framan af fornafninu, og þar sem ð fellur oft brott í enda orðs í áhersluleysi stendur yfirleitt ekkert eftir af fornafninu nema ifariði, komiði, segiði, og slíkar myndir sjást stöku sinnum í ritmáli. Einnig er til að skrifað sé farið, komið, segið, en það er sjaldgæfara.

Það er eðlilegt að líta á spurnarmyndir í annarri persónu eintölu sem sérstakar orðmyndir vegna þess að fornafnið tekur þar miklum breytingum – u kemur í stað ú, og upphafshljóðið lagar sig að lokasamhljóði stofnsins. Það er líka hægt að færa setningafræðileg rök fyrir því að X-u-myndirnar séu sérstakar orðmyndir en ekki framburðarmyndir af X+þú, en það er of flókið til að fara út í hér. Mér finnst hins vegar ástæðulaust að sýna viðskeytingu þið og annarra fornafna en þú í riti vegna þess að sú viðskeyting lýtur almennum framburðarreglum málsins.

En þá er rétt að leggja áherslu á að stafsetning er vitanlega frjáls nema í skólum og stofnunum á vegum opinberra aðila, þannig að fólk sem vill skrifa fariði eða fariðið gerir það bara.