gruna

Nýlega sá ég á vefmiðli fyrirsögnina „Íbúa grunar sömu aðila um endurtekin innbrot“. Ástæðan fyrir því að ég staldraði við þessa fyrirsögn var að þar er upphafsorðið íbúa í þolfalli, sem ekki er í samræmi við málhefð. Venja er að hafa þarna nefnifall, eins og er reyndar í undirfyrirsögn í sömu frétt þar sem segir „Íbúar gruna sömu aðila um endurtekin innbrot“ og einnig „Við grunum oft fólk með sakaferil og neyslu um slík brot“. Í sjálfu sér er vel skiljanlegt að fallnotkun með gruna sé eitthvað á reiki vegna þess að sögnin er notuð á tvennan hátt í hefðbundnu máli.

Annars vegar tekur hún nefnifallsfrumlag og þolfallsandlag, ég gruna þig um innbrot, en hins vegar þolfallsfrumlag og aukasetningu, mig grunar að þú hafir brotist inn (stundum er reyndar notað þágufall í stað þolfallsins). Í Íslenskri nútímamálsorðabók er fyrri notkunin skýrð sem 'hafa grunsemdir (gagnvart e-m)', en sú síðari sem 'hafa grunsemdir (um e-ð), renna í grun (að e-ð)'. Þarna er augljóslega mjög skammt á milli og þessar setningagerðir blandast að einhverju leyti saman þegar í fornu máli - „því að þú grunaðir þegar að eigi myndi allt af heilu vera“ segir t.d. í Egils sögu.

Þetta tengist líka því að merking sagnarinnar gruna var áður að nokkru leyti önnur, þ.e. 'efast um'. Það sést t.d. á setningunni „Og ef nokkur grunar sögu mína þá má hér nú líta höfuð af honum“ úr Þórarins þætti ofsa. Þessi merking hélst a.m.k. fram á seinni hluta 19. aldar - „hefi ég eigi orðið þess var, [...] að nokkurum hafi komið til hugar að gruna hann um þjóðhollustu“, segir í Fjallkonunni 1885, augljóslega í merkingunni 'efast um þjóðhollustu hans'. En þessi merking er ekki nefnd í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals frá 1920-1924.

Á tímarit.is hef ég fundið rúmlega 20 dæmi frá 20. og 21. öld um þolfall í sambandinu gruna einhvern um eitthvað, það elsta í Morgunblaðinu 1932: „Nágrannana grunaði þær um galdur, rjeðust að húsinu að nóttu til og brendu alt sem í var.“ En í langflestum tilvikum er þó greint milli þeirra tveggja setningagerða sem nefndar voru í upphafi. Þótt lítill merkingarmunur setningagerðanna valdi því að blöndun þeirra sé skiljanleg finnst mér samt æskilegt að fylgja málhefð og halda þeim aðgreindum áfram.