More about mannskratti
Fyrir 60-70 árum birtu tveir málfræðingar greinar um samsett orð af tegundinni mannskratti. Þriðja málfræðingnum fannst þó ekki nóg að gert, og birti árið 1963 grein í tímaritinu Íslenzkri tungu undir heitinu „More about mannskratti“. Þetta hefur mér alltaf fundist einhver skemmtilegasti titill á málfræðigrein sem ég þekki og þess vegna fannst mér upplagt að endurnýta hann nú. Ég ætla að vísu ekki að skrifa um mannskratti, heldur um skrattans manninn – þetta vandræðaorð sem ég hef skrifað um ótal sinnum áður.
Það liggur fyrir að orðið maður hefur frá fornu fari fleiri en eina merkingu í íslensku. Merkingin getur verið (a) tegund (maðurinn er spendýr), (b) einstaklingur eða hópur af þessari tegund (gamall maður, margir menn), (c) karlmaður (maður og kona), (d) eiginmaður (maðurinn minn), og auk þess er orðið mikið notað sem (e) eins konar óákveðið fornafn (maður skilur þetta ekki).
Skiptar skoðanir um notkun orðsins varða einkum merkingu (b). Stundum virðist fólk telja að að vegna þess að maður/menn geti haft almenna (kynhlutlausa) merkingu sé alltaf hægt að nota maður/menn á þann hátt þegar átt er við einstakling eða hóp af tegundinni „maður“. Þannig er það þó ekki, a.m.k. ekki í minni málkennd. Ég skal reyna að skýra þetta nánar.
- Þegar kona segir ég er maður er um að ræða tegundarmerkinguna – eða a.m.k. hægt að túlka setninguna þannig. Þetta er í samræmi við málkennd mína.
- Í setningum eins og konur eru menn er um að ræða óskilgreindan óafmarkaðan hóp. Sama máli gegnir um setningar eins og menn telja þetta líklegt og mönnum þykir þetta ótrúlegt. Í mínu máli getur menn í þessum setningum vísað til bæði karla og kvenna.
- Stundum er í raun verið að vísa til ákveðins einstaklings með maður þótt vísunin virðist almenn – þótt sá einstaklingur sé ekki nafngreindur og ekki þekktur er hann skilgreindur og afmarkaður á einhvern hátt, t.d. með því sem hann hefur orðið fyrir. Þannig segir í almennum hegningarlögum: „Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum.“ Mér finnst mjög óeðlilegt að láta mann vísa til bæði karla og kvenna í slíkum dæmum.
- Með fleirtölunni menn er stundum verið að vísa til skilgreinds og afmarkaðs hóps þótt þau sem vísað er til séu ekki nafngreind, heldur einkennd á einhvern hátt. Þannig hefur lengi staðið í lögum félags sem ég er í: „Á aðalfundi skal kjósa formann félagsins, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. […] Þessir menn skulu allir kjörnir til eins árs í senn.“ Mér finnst menn ekki geta vísað til bæði karla og kvenna í slíkum tilvikum.
- Þegar sagt er ég hitti mann sem ég þekki í gær er augljóslega um ákveðinn einstakling að ræða. Ég get ómögulega látið mann í slíkum setningum vísa til konu, og það held ég að gildi um flesta málnotendur.
Ég legg áherslu á að í öllum tilvikum er ég að tala um raunverulega málkennd mína – ekki einhverja tilbúna málkennd eða skoðun byggða á „misskilinni jafnréttisbaráttu“ eins og stundum er talað um. En með þessu er ég ekki að taka neina afstöðu til notkunar orðsins maður – bara að reyna að glöggva mig, og hugsanlega ykkur, á mismunandi notkun orðsins.