Nipplur

Í gær rakst ég á Facebook-færslu hjá norskri konu sem ég þekki, málfræðingi, sem skrifaði: „Ordet "brystvorte" er på vei ut. Nå heter det "nippel". En nippel, flere nipler, alle niplene. Og det er like greit, for "brystvorte" er jo ikke noe spesielt sjarmerende ord.“ Sem sé – orðið brystvorte er að hverfa úr norsku, en þess í stað er enska orðið nipple fengið að láni og talað um nippel, í fleirtölu nipler og með greini niplene. Þetta minnti mig á nokkurra ára gamla íslenska umræðu.

Í íslensku er sama merking tjáð með orðinu geirvarta. Það er nokkuð sérkennilegt og á skjön við venjulega merkingu orðsins varta sem er 'lítil góðkynja æxli á yfirborði húðar, myndast við vírussýkingu' samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók og 'Sérhver húðþrymill með ósléttu yfirborði' samkvæmt Íðorðasafni í læknisfræði. En geirvarta er auðvitað ekki æxli, og húðþrymill er ekki heldur sérlega viðeigandi eða viðfelldin lýsing.

Nú er það auðvitað svo að merking samsettra orða er iðulega ekki summa af merkingu samsetningarliðanna. Ef samsett orð kemst í verulega notkun fer það að lifa sjálfstæðu lífi og verður smám saman óháð uppruna sínum að meira eða minna leyti. Þess vegna þarf merking orðsins varta í sjálfu sér ekki að skila sér inn í merkingu samsetningarinnar geirvarta. En það breytir því ekki að það er ekkert undarlegt að fólk tengi þetta saman og það hafi áhrif á tilfinningu þess fyrir orðinu geirvarta.

Fyrir nokkrum árum var efnt til óformlegrar atkvæðagreiðslu um ljótasta orðið í íslensku, í framhaldi af kosningu fegursta orðs málsins sem Háskóli Íslands beitti sér fyrir. Orðið geirvarta fékk yfirburðakosningu sem ljótasta orð málsins, sem er kannski engin furða í ljósi tengingarinnar við varta. Stundum er í staðinn notað orðið brjóstvarta sem er hliðstætt því orði sem er notað í skandinavísku málunum – þótt fyrri liðurinn sé skiljanlegri en í geirvarta er seinni hlutinn sá sami sem þýðir að þetta er ekki mikið heppilegra orð.

Í umræðunni um þetta fyrir nokkrum árum komu upp ýmis orð, eins og brjóstrósir, brjóstaknúppar og týrbjöllur. En líklega er þó oftast farin sama leið og í norsku og enska orðið fengið að láni með viðeigandi aðlögun og notað orðið nippla, í fleirtölu nipplur. Það er bara ágætis orð og fellur vel að málinu. Er nokkuð á móti því að taka það upp?