Misskilningur um orðið maður

Hér hefur oft verið rætt um orðið maður og andstöðu sumra við að nota það og samsetningar sem enda á því í almennri merkingu, láta það vísa til fólks af öllum kynjum. Stundum er því haldið fram að sú andstaða hljóti að leiða til þess að öllum orðum með þessari rót sé hafnað – orðum eins og mannlegur, mannréttindi, mannsæmandi, mannúð, manngæska, manntal, menning, menntun, mennskur og ótalmörgum fleiri. Í blaðagrein sem birtist í vor var sagt að ef almennu merkingunni í maður yrði útrýmt myndi fólk í framtíðinni „álykta að mannamót hafi verið karlasamkomur, mannamatur hafi verið ætlaður körlum einum, manngengir hellar verið lokaðir konum, að mannýg naut hafi aðeins ráðist á karla, o.s.frv.“.

En þetta er misskilningur eða rangtúlkun, eins og raunar má sjá af því að sumt fólk sem vill forðast maður í almennri merkingu notar manneskja eða man í staðinn – orð sem eru af sömu rót. Andstaðan við orðið maður og samsetningar af því stafar af því að það er svo oft notað sem andstæða við kona. Þannig er það ekki um orðin sem hafa þessa rót sem fyrri lið. Vissulega er til kvenlegur en það er ekki andstæða við mannlegur, kvenréttindi eru ekki andstæða við mannréttindi, o.s.frv. Þess vegna hefur mann- hlutlausa merkingu í þessum orðum. Sama máli gegnir um myndina manns í samböndum eins og fjöldi manns – þótt hún sé formlega séð eignarfall af maður hagar hún sér í raun eins og sjálfstætt orð eins og ég hef skrifað um.

Það kann vissulega að virðast „rökrétt“ að fólk sem telur orðið maður óheppilegt í almennri merkingu amist líka við öðrum orðum af sömu rót. En eins og ég hef margsinnis lagt áherslu á fer því fjarri að tungumálið sé fullkomlega „rökrétt“. Samsett orð lifa sjálfstæðu lífi, oft meira og minna óháð þeim rótum sem þau eru upphaflega mynduð af. Þess vegna er ekkert óeðlilegt við það og engin mótsögn fólgin í því að fólk sem vill forðast að nota maður í almennri merkingu noti ýmis orð sem leidd eru af sömu rót. Með þessu er ég ekki að taka neina afstöðu til þess hvort umrædd andstaða við maður sé eðlileg eða skynsamleg – bara að benda á að hún leiðir ekki sjálfkrafa til andstöðu við önnur orð með sömu rót.