Málfarsumræðan á Íslandi

Í gær skrifaði ég í Facebook-hópnum Málspjall um mikilvægi þess að skapa jákvæðari ímynd af íslenskunni og sagði: „Það verður ekki gert með leiðréttingum og athugasemdum við það mál sem fólk er alið upp við og er því eiginlegt. En það verður ekki heldur gert með því að amast við eða berjast gegn nýjungum í máli sem sumar hverjar stefna að því að tungumálið komi betur til móts við málnotendur.“

Þetta er einlæg skoðun mín og mér fannst þetta – og finnst – hógværlega orðað. En ég fékk harkaleg viðbrögð í athugasemdum:

  • „Í þessu felst í mínum huga sú uppgjöf sem verið hefur stefna íslenskukennslu undanfarna áratugi. Það er enginn að tala um að ríkja þurfi heragi í málinu en þessi stefna lýsir undanlátsemi sem leitt hefur af sér illa skrifandi og talandi kynslóðir sem eru í dag meira og minna fallnar fyrir enskri setningafræði. Allt má ef fleiri en tveir hafa sagt það. Svarið er alltaf, já hvers vegna ekki, málið er að þróast.“

Þetta er rangt á svo margan hátt. Það sem segir í tilvitnuðum orðum mínum hefur sannarlega ekki verið leiðarljós í íslenskukennslu undanfarna áratugi. Ef það væri rétt að yngri kynslóðir væru „illa skrifandi og talandi“ og „meira og minna fallnar fyrir enskri setningafræði“ (sem er gróf alhæfing og að mestu leyti röng) þá yrði að kenna einhverjum öðrum en íslenskukennslunni um það.

Hins vegar er þetta dæmigert fyrir það hvernig málfar ungs fólks er alltaf talað niður eins og ég hef skrifað um. Setningin „Allt má ef fleiri en tveir hafa sagt það" er líka kolröng. Hér hefur margsinnis verið farið yfir það hvað málvenja er.

  • „Ég er ekki að tala um málvenjur heldur að mér virðist allt nær undantekningarlaust fyrirgefið og útskýrt með “eðlilegri þróun málsins”. Það má alls ekki segja að eitthvað sé rangt eða sé að fara með málið í vonda átt. Þá er maður málfarsfasisti.“

Því fer fjarri að allt sé „nær undantekningarlaust fyrirgefið og útskýrt með “eðlilegri þróun málsins”“. Ég hef skrifað um „eðlilega þróun“ og reynt að skilgreina hana, og bent á að hún þurfi ekki að vera æskileg. „Það má alls ekki segja að eitthvað sé rangt“ er líka della. Vissulega er til rétt og rangt mál. Ég hef líka fordæmt það orðalag sem oft hefur viðgengist í íslenskri málfarsumræðu, þ. á m. málfarsfasisti. Ég sé reyndar ekki oft að fólk sé kallað þessu nafni en iðulega að fólk sé að kvarta yfir því að vera kallað því.

  • „Nú eru allir svo viðkvæmir að það liggur við ákærum og áfallahjálp ef einhver vogar sér að “leiðrétta” fólk. Þá er ég ekki að tala um að leiðrétta fólk almennt í samtölum heldur þegar það lætur eitthvað frá sér í rituðu eða töluðu máli og veður augljóslega áfram eins og blindur fíll í postulínisbúð.“

Þetta er rangt. Ég hef oft lagt áherslu á að þótt ekki sé við hæfi að leiðrétta fólk í venjulegum samskiptum sé annað mál að leiðrétta texta fólks sem hefur tungumálið að atvinnutæki. Ég hef líka skrifað um að hroðvirkni sé óafsakanleg.

Ég myndi ekki kippa mér upp við þessar athugasemdir ef þær væru óvenjulegar. En svo er því miður ekki. Eitt það versta við íslenska málfarsumræðu (og svo sem íslenska umræðuhefð yfirleitt) er hversu algengt það er að fólki séu gerð upp orð og skoðanir sem síðan er ráðist gegn. Þetta sér maður mjög oft í athugasemdakerfum vefmiðla og á Facebook, ekki síst í Málvöndunarþættinum, en sjaldan hér sem betur fer, enda var þessi hópur ekki síst stofnaður til að reyna að breyta umræðunni.

Þetta er óþolandi. Ég veit að ýmsar skoðanir sem ég hef viðrað á málfarslegum efnum eru umdeilanlegar og umdeildar – það er eðlilegt, og ég skorast ekkert undan því að ræða þær á málefnalegan hátt. En mér finnst óþolandi þegar mér og öðrum sem setja fram gagnrýni á hefðbundna málstefnu og málstaðal eru sífellt gerðar upp skoðanir – beinlínis skrökvað upp á okkur. Það er a.m.k. ekki til þess fallið að bæta ímynd íslenskunnar – sem er það sem skiptir máli.