-ósa: Vannýtt viðskeyti
Í Facebook-hópnum Málspjall skapaðist nýlega skemmtileg umræða um orðið kynósa sem Þórunn Valdimarsdóttir rithöfundur notaði í Kiljunni um daginn þegar hún talaði um að Íslendingar hefðu verið „kynósa þjóð“. Þetta orð virðist vera mörgum ókunnugt og sannarlega er það ekki algengt. Það er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók en fáein dæmi eru þó um það í Risamálheildinni og á tímarit.is og það er flettiorð í Íslenskri orðabók með skýringunni „gegnsýrður af kynlífshugsun og -atferli“. Orðið hefur á undanförnum áratugum ekki síst verið notað í umræðu um bókmenntir en í seinni tíð líka um konur, og virðist oft notað í svipaðri merkingu og femme fatale.
Elsta dæmi um orðið er að finna í bréfi Magnúsar Ásgeirssonar skálds til Snorra Hartarsonar, sem birtist í Helgafelli 1944. Þar er verið að fjalla um nýlegar bækur, og um Nátttröllið glottir eftir Kristmann Guðmundsson segir m.a.: „Bókin er að vísu mjög kynósa (sbr. danósa hjá Sigurði meistara á Akureyri) […].“ Þetta orðalag bendir til þess að Magnús hafi búið orðið til og sé þarna að nota það í fyrsta skipti. Vísunin til Sigurðar Guðmundssonar er væntanlega í grein í Munin 1934, þar sem segir: „Og ótrúlega margir fara á þennan hátt forgörðum, eða »fara í hundana«, sem slíkt var í æsku minni kallað á danósa íslenzku.“ Magnús virðist hafa talið að Sigurður væri höfundur orðsins danósa, enda var hann þekktur nýyrðasmiður, en svo er þó ekki, þótt sárafá eldri dæmi séu til.
En elsta dæmið um danósa er í bréfi Konráðs Gíslasonar prófessors til Björns M. Ólsen frá 1885. Þar segir: „Ósköp þætti mjer vænt um, ef þjer vilduð taka að yður […] kvennvæflu, sem hefur verið sæmilegur kvennmaður á unga aldri, enn nú er orðinn púta, og hefur »f . . . . ós« eða er að minsta kosti danósa. Þessi aumingja kvennvæfla er íslenzkan. Mjer er nærri því sama, hvernig hún er, ef hún er ekki danósa. Við Íslendingar, að minsta kosti vel flestir, förum með hana eins og við værum djöflar enn ekki menn.“ Þetta er gott dæmi um það hvernig íslenskan hefur lengi verið talin á leið í hundana. Konráð líkir henni við vændiskonu sem sé með fransós ('sárasótt', þótt orðið sé ekki skrifað fullum stöfum) eða sé að minnsta kosti danósa sem er skýrt í Íslenskri orðabók sem „gegnsýrður af dönskum áhrifum“.
Ekki er ólíklegt að Konráð hafi myndað orðið danósa og þá með hliðsjón af orðum eins og flaumósa og spánósa sem bæði eru eldri, en af samhenginu mætti ætla að hann hafi einnig haft fransós í huga við myndun orðins, þótt orðhlutinn -ós sé þar annarrar ættar. En viðskeytið -ósa kemur fyrir í fáeinum orðum þótt fæst þeirra séu notuð í nútímamáli – varla nema flaumósa og vatnsósa. Í bók Alexanders Jóhannessonar prófessors frá 1927, Die Suffixe im Isländischen, eru auk þessara orða nefnd „bjórósa (Neuisl.) biertrunken, […] reykósa von Rauch durchdrungen, spánósa neu (nach Span riechend)“. Auk þess nefnir Alexander að orðið danósa sé nýmyndun undir áhrifum þessara orða. Orðið bjórósa kemur fyrir í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 í merkingunni ‚'øllet' en spánósa kemur fyrir þegar í fornu máli og merkir 'spánnýr'.
Mér finnst -ósa vera dæmi um vannýtt viðskeyti sem upplagt er að nota meira – bæði í orðum sem fyrir eru og ekki síður til að búa til ný orð hliðstæðrar merkingar. Ekki er lengur mikil þörf á orðinu danósa en í stíl við það mætti mynda enskósa um það sem er „gegnsýrt af enskum áhrifum“ (enósa væri meiri hliðstæða við danósa en orðhlutinn en- veitir ekki nægar upplýsingar). Fyrir nokkrum árum þegar reykingar voru almennari var algengt að tala um ákvarðanir sem voru teknar í reykfylltum bakherbergjum – það hefði farið vel á að tala um reykósa bakherbergi. Orðið bjórósa er augljóslega gagnlegt og í stíl við það mætti nota vínósa í merkingunni 'fullur'. Þá má hugsa sér lyfósa í stað uppdópaður, sykrósa í merkingunni 'í sykursjokki', svefnósa í merkingunni 'svefndrukkinn' og margt fleira.