Að strauja kortið

Hér hefur stundum verið fjallað um orð sem í upphafi voru gagnsæ en hafa nú misst gagnsæi sitt – ekki vegna breytinga sem á þeim hafa orðið, heldur vegna þess að einhverjar breytingar, einkum samfélags- eða tæknibreytingar, valda því að þau hafa glatað tengslunum við upprunann. Þetta er mjög algengt á seinustu áratugum vegna örra tæknibreytinga. Upphaflega fólst t.d. augljós líking í því að nota orðið mús um stjórntæki tölvu. En nú eru tölvumýs iðulega skottlausar og orðið jafnvel notað um reit eða titt í lyklaborðinu sem gegnir sama hlutverki. Þá er forsenda líkingarinnar auðvitað á bak og burt, en orðið helst.

Eitt dæmi um þetta er orðið strauja í sambandinu strauja kortið. Þegar farið var að nota greiðslukort á Íslandi árið 1983 voru posar ekki komnir, hvað þá snertilaus afgreiðsla. Þess í stað voru kortin lögð á sérstakt tæki (stundum kallað handþrykkivél) undir marglaga eyðublað með kalkipappír sem upphæðin hafði verið skrifuð á. Síðan var sleða rennt yfir hvorttveggja þannig að blaðið þrýstist niður á kortið og upphleyptu stafirnir á kortinu birtust á blaðinu. Svo þurfti að senda eitt af afritunum í banka.

Sú athöfn að renna sleðanum yfir kortið var fljótlega kölluð að strauja. Elsta dæmi sem ég finn um þetta er í umfjöllun Morgunblaðsins síðla árs 1985 um sprengingu í notkun nýjungarinnar greiðslukorta og galla sem henni fylgja: „Forráðamenn kortafyrirtækjanna benda á, að afgreiðslufólki verði það helst á að gleyma að „strauja“, þ. e. að valsa yfir útskriftarnóturnar.“ Það liggur beint við að nota sögnina strauja um þessa athöfn þannig að þessi orðnotkun var í upphafi mjög gagnsæ.

Árið 1990 var farið að nota svokallaða posa þar sem upplýsingar á kortinu eru skráðar rafrænt í stað þess að kortið sé straujað. Það tók einhver ár að skipta handþrykkivélunum út fyrir posana, en líklega er óhætt að segja að slíkar vélar hafi sáralítið verið notaðar undanfarinn aldarfjórðung og stór hluti landsmanna hafi aldrei séð slíkt tæki. Samt er sambandið strauja kortið miklu algengara nú en á tímum handþrykkivélanna, þótt forsenda líkingarinnar sé farin. Þetta er gott dæmi um að orð sem komast í almenna notkun fara að lifa sjálfstæðu lífi, óháð uppruna sínum, og geta haldist í málinu þótt þau séu ekki lengur gagnsæ.

En reyndar sýnist mér að merkingin í strauja kortið hafi breyst dálítið og þrengst. Það merkir ekki lengur 'borga með greiðslukorti' eins og upphaflega, heldur oftast 'eyða peningum' og jafnvel 'eyða ótæpilega' eða 'eyða um efni fram'. Í Fréttablaðinu 2014 segir „Erlendir ferðamenn hafa aldrei straujað kortin sín fyrir hærri fjárhæð hér á landi en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs“, í Morgunblaðinu 2017 segir „Með þessu móti má einnig dreifa kostnaðinum yfir lengra tímabil í stað þess að strauja kortið óheyrilega í desember“ og í DV 2017 segir „Ég þurfti engu að síður að halda niðri í mér andanum þegar ég straujaði kortið“.