Menni sem kynhlutlaust orð

Það hefur verið stungið upp á að nota orðið man sem kynhlutlaust orð í stað maður eða manneskja, m.a. í samsetningum, og til eru konur sem titla sig t.d. þingman og forstöðuman. Ég skil ástæðuna, en þetta orð er að mínu mati ekki mjög heppilegt. Það er fyrir í málinu í annarri merkingu, þ.e. 'kona' eða 'ófrjáls manneskja, karl eða kona' og ef það er notað í kynhlutlausri merkingu í stað maður er verið að gefa því nýja merkingu. Það er svo sem ekki frágangssök og hefur stundum tekist vel, t.d. í orðum eins og sími og skjár. En annað er að aukaföll orðsins eru mjög svipuð aukaföllum af maður – þ.e. man mani mans og mann manni manns. Orðið lendir oft í áhersluleysi, sérstaklega þegar það er seinni hluti samsettra orða, og við þau skilyrði er lengdarmunur hljóða lítill sem enginn og orðin falla því saman í framburði.

Ég hef því áður lagt hér til (og Margrét Guðmundsdóttir á undan mér) að orðið menni verði tekið upp í þessum tilgangi. Kosturinn við menni er að það er af sömu rót og maður og manneskja, en er hvorugkynsorð. Menni er til í málinu en aðeins sem seinni liður samsetninga. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að leyfa því að standa sjálfstætt – merkingin er sú sama og það hefur í samsetningunum. Það eru fordæmi fyrir því að orðhlutar sem áður voru aðeins til sem seinni liður samsetninga hafi verið gerðir sjálfstæðir, svo sem hýsi og þýði. En svo er um að gera að halda áfram að nota -menni í þeim samsetningum sem fyrir eru og búa til fjölmargar nýjar – vísindamenni, alþingismenni, námsmenni, verslunarmenni, verkamenni, lögreglumenni, stýrimenni, iðnaðarmenni, leiðsögumenni, formenni o.fl.

Ég hef heyrt þá skoðun að samsetningar með -menni veki einhver neikvæð hughrif eða séu smættandi á einhvern hátt. En þótt við höfum vissulega ýmis neikvæð orð eins og illmenni, smámenni, ómenni, fúlmenni, varmenni, lítilmenni, dusilmenni, stertimenni, rustamenni, skítmenni og löðurmenni eru jákvæðu orðin miklu fleiri – ljúfmenni, snyrtimenni, stórmenni, prúðmenni, góðmenni, glæsimenni, ofurmenni, fyrirmenni, hraustmenni, mikilmenni, heljarmenni, karlmenni, hreystimenni, valmenni, gáfumenni, frægðarmenni, göfugmenni, eðalmenni, lipurmenni, séntilmenni, þrekmenni og afarmenni – svo að bara séu tínd til orð sem 10 dæmi eða fleiri eru um í Risamálheildinni. Og það er svo sem ekki eins og allar samsetningar með -maður séu jákvæðar.

Vitanlega tæki tíma að venjast því að nota menni og samsetningar af því á þennan hátt, eins og önnur ný orð. Og vitanlega er ég ekki að leggja til að hætt verði – hvað þá bannað – að nota orðið maður á kynhlutlausan hátt. Auðvitað ræður fólk sinni málnotkun, en það er mikilvægt að fólk sem ekki getur eða vill nota maður sem kynhlutlaust orð eigi annarra kosta völ. Ég get t.d. ómögulega sagt ég hitti mann sem ég þekki í gær ef það var kona sem ég hitti. Þá verð ég að segja ég hitti konu sem ég þekki. En kannski kæri ég mig ekkert um að láta kynið koma fram – fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Þá væri gagnlegt að geta sagt ég hitti menni sem ég þekki í gær. Ég er sjálfur farinn að nota menni á þennan hátt og finnst það venjast ágætlega.