Kostningar

Í gær var talsverð umræða á netinu um að orðið Kostningar, þannig ritað, birtist þeim sem fóru inn á vef Kennarasambandsins til að kjósa formann. Sumum fannst þetta koma úr hörðustu átt en í ljós kom að starfsfólk Kennarasambandsins bar enga ábyrgð á þessari stafsetningu. Nú er ég hlynntur samræmdri stafsetningu og tel eðlilegt að henni sé fylgt, og ætla því ekki að fara að mæla þessum rithætt bót. Samt sem áður hef ég mikla samúð með þeim sem skrifaði orðið svona í þessu tilviki.

Þetta er nefnilega fjarri því að vera eina dæmið um þennan rithátt. Á tímarit.is skipta dæmin hundruðum, þau elstu frá 1875. Það er augljóst að ritvilla sem svo mörg dæmi eru um er ekki einhver venjuleg prentvilla, heldur hlýtur að eiga sér einhverja ástæðu. Það er almenn regla í íslensku að þar sem s og n standa saman í riti kemur t inn á milli í framburði. Þess vegna er fyrri hluti orða eins og kostn-aður og kosn-ingar borinn fram á nákvæmlega sama hátt, þótt t sé aðeins ritað í fyrra orðinu. Það er ekkert skrítið við það að fólki finnist eðlilegt að skrifa þetta t sem það heyrir greinilega, sérstaklega þar sem það er skrifað í orðum sem eru borin eins fram.

Við þetta bætist að ef við förum að velta rithættinum fyrir okkur er ekki ólíklegt að við komumst að þeirri niðurstöðu að þarna hljóti að eiga að vera t. Það liggur nefnilega beint við að tengja kosningar við orðið kostur – í kosningum er alltaf verið að velja milli einhverra kosta. Tengingin við kjósa er í raun og veru miklu langsóttari – þar kemur kos- aðeins fyrir í lýsingarhætti þátíðar og ekki með n á eftir nema í þágufalli eintölu karlkyns og hvorugkyns (kosnum/kosnu) og fleirtölunni (kosnir/kosnar). En sögulega séð er kosning leitt af kjósa en ekki af kostur, og þar sem íslensk stafsetning byggist einkum á uppruna orða er það ritað án t.