Fangum við ketti – eða föngum?

Í nýlegri frétt Ríkisútvarpsins um bann við lausagöngu katta var talað við mann sem lýsti því hvað gerist „ef við fangum dýrið“ – fangum borið fram með á, fángum, eins og við gerum flest. Þetta var tekið upp í Málvöndunarþættinum, væntanlega til að vekja athygli á „villunni“. Ef a er í stofni orðs kemur ö í þess stað á undan endingunni -um, í nafnorðum, sögnum og lýsingarorðum. Nafnorðið kjaftaskur verður kjaftöskum í þágufalli fleirtölu, sögnin útata verður útötum í fyrstu persónu fleirtölu, og lýsingarorðið snjall verður snjöllum í þágufalli fleirtölu. Þess vegna mætti búast við að sögnin fanga yrði föngum í dæminu hér að framan – og það verður hún líka oftast.

En samt er ekki alveg ljóst að rétt sé að flokka fangum sem villu. Fyrsta persóna fleirtölu af sögninni einangra er ýmist einöngrum eða einangrum, og þótt þágufall fleirtölu af nafnorðinu leiðangur sé aðeins gefið sem leiðöngrum í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er myndin leiðangrum líka töluvert algeng samkvæmt tímarit.is. Þarna verður að hafa í huga að í máli okkar flestra er borið fram á en ekki a á undan ng, og sömuleiðis au en ekki ö. Þar af leiðir að hljóðavíxlin í þessum orðum eru ekki milli a og ö, eins og er í kjaftaskur, útata og snjall og stafsetningin bendir til, heldur milli á og au.

Orð með á í stofni breyta því venjulega ekki á undan endingunni -um – þágufall fleirtölu af fáni er fánum, fyrsta persóna fleirtölu af lána er lánum, þágufall fleirtölu af smár er smáum, o.s.frv. Orð með a í stofni eiga engra kosta völ þegar þau fá endinguna -um – þau verða að breyta a í ö, annars brjóta þau ófrávíkjanlegar reglur málsins. Myndir eins og *kjaftaskum og *útatum eru útilokaðar í íslensku. En þegar um er að ræða orð með á í stofni á undan ng á málið val. Það getur kosið að taka tillit til þess að á er orðið til við tvíhljóðun úr a (eins og stafsetningin gefur til kynna) og breytt því á sama hátt og a myndi breytast, þ.e. í ö – sem kemur út sem tvíhljóðið au á undan ng. Þetta er það sem langoftast gerist, og það gefur okkur leiðöngrum, einöngrum – og föngum, af sögninni fanga.

En málið getur líka kosið að meðhöndla á á undan ng á sama hátt og hvert annað á, og haldið því óbreyttu þótt -um komi á eftir. Það gefur okkur leiðangrum, einangrum – og fangum, eins og sagt var í fréttinni sem vísað var til í upphafi. Þessi kostur er mun sjaldnar valinn en hinn, nema í einstöku orðum – einangrum er miklu algengara en einöngrum eins og bent er á í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Í mörgum orðum með ang stendur a aldrei óbreytt á undan -um – t.d. er þágufall fleirtölu af nafnorðinu fangi aldrei *fangum. Hins vegar eru rúm 50 dæmi um það á tímarit.is að lýsingarorðið ástfanginn verði ástfangnum í þágufalli fleirtölu, þótt ástföngnum sé vissulega fjórum sinnum algengara.

Það er því ljóst að myndin fangum af sögninni fanga á sér skýrar hliðstæður og er í sjálfu sér eðlileg og í samræmi við reglur málsins, en hins vegar styðst hún ekki við hefð.