Málfarsumræða á villigötum

Svona er tekið á móti nýkjörnum formanni Kennarasambandsins í Málvöndunarþættinum. Í athugasemdum við innleggið segir m.a.: „Ætti hann kannski frekar að vera formaður nemendafélagsins…“, „Tók eftir því, ææææ“, „Ekki byrjar það vel“, „Úff“, „Agalegt að maðurinn skuli vera svona blæsma á máli.“, „Æ,,,,, dapurt“, „Sei sei sei ekki er það efnilegt maður minn“, „Úps“, „Ég held að það þurfi að skerpa verulega á íslenskukennslu í skólum“, „Tók samstundis eftir þessu, usss,uss, usss“, „Er þetta ekki frágangssök ?“, „Heimur versnandi fer...“, „kommon hann er kennari og kann ekki íslensku !!!“

Svona fordómar ná auðvitað ekki nokkurri átt. Hér er verið að gera því skóna að eitt atriði í málfari manns — atriði sem er eðlilegur hluti af málkerfi verulegs hluta þjóðarinnar — geri hann óhæfan til að gegna því starfi sem hann er kosinn til. En þar fyrir utan sagði Magnús alls ekki mér langar. Hann byrjar á einhverju sem er ógreinilegt og gæti verið hvort heldur mi- eða mé-, en segir svo greinilega mig langar. Seinna í fréttinni segir hann aftur mig langar, og í Kastljósi sama kvöld sagði hann nokkrum sinnum mig langar en aldrei mér langar. Þarna var verið að skrökva upp á hann.

Þetta er dapurlegur vitnisburður um íslenska málfarsumræðu. Fólk heyrir það sem það vill heyra, og ansi mörgum þykir ekki verra ef kennurum verður á í messunni. Svo étur hver upp eftir öðrum og hneykslast. En að dæma fólk eftir þeim málfarslegu tilbrigðum sem því eru eiginleg er engu betra en mismunun á grundvelli „kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti“ sem er bannað í Stjórnarskrá. Það er rangt og það er ljótt. Það er óþolandi.

En fyrir utan það að þessi umræða er ósanngjörn og óviðunandi gagnvart þeim sem um ræðir er hún stórskaðleg fyrir íslenskuna. Það er grundvallaratriði fyrir framtíð íslenskunnar að ímynd hennar sé jákvæð og umræða um hana byggð á skilningi og umburðarlyndi. Við fáum ekki almenning með okkur, allra síst unga fólkið, ef við erum sífellt að fetta fingur út í málfar fólks, jafnvel gömul tilbrigði sem stór hluti þjóðarinnar hefur alist upp við, og dæma fólk eftir málfari sem því er eiginlegt. Slík umræða gerir ekki annað en skapa málótta og er í raun skemmdarverk.