Íslenska og útlendingar - einu sinni enn
Í dag sá ég einu sinni sem oftar umræðu á Facebook um framkomu Íslendinga við erlent afgreiðslufólk. Og eins og vanalega voru skiptar skoðanir - sumum fannst óþolandi að þessu fólki væri sýndur dónaskapur fyrir að tala ekki íslensku en öðrum fannst óþolandi að fólkið skyldi ekki tala íslensku. Ég skil bæði sjónarmiðin en á þessu máli eru auðvitað tvær hliðar.
Ég get alveg tekið undir það að það er eðlilegt að ætlast til þess að geta fengið afgreiðslu á íslensku á Íslandi. Íslenska er opinbert tungumál landsins og alls ekki allir sem treysta sér til að tala ensku. Það er líka sjálfsagt að byrja alltaf að tala íslensku við afgreiðslufólk og halda því áfram ef fólkið vill greinilega reyna að skilja okkur - og aðstoða við skilninginn eftir mætti. Það er forsenda fyrir því að fólk læri málið.
En það er algerlega óþolandi dónaskapur að skamma fólk eða hreyta ónotum í það fyrir að tala ekki íslensku. Það er ekki á ábyrgð fólksins sjálfs, heldur atvinnurekenda. Fólkið hefur verið ráðið í vinnu án þess að krafa væri gerð um íslenskukunnáttu. Það er á ábyrgð atvinnurekenda að kenna starfsfólki sínu það sem þarf til að það geti sinnt því starfi sem það er ráðið til á sómasamlegan hátt, hvort sem er að kenna því á kassann, ísvélina, lattegerð, eða grunnorðaforða í íslensku.
Stundum er sagt að erlent starfsfólk hafi ekki áhuga á að læra íslensku jafnvel þótt það standi til boða. Ég skal ekki fullyrða neitt um það, en sé það rétt þarf svo sem ekkert að furða sig á því. Þótt íslenska sé ekki með erfiðustu málum eins og oft er haldið fram er íslenskunám erfitt og tímafrekt, ekki síst fyrir fólk sem á gerólíkt tungumál að móðurmáli. Það er varla við því að búast að fólk bæti því ofan á langan vinnudag.
Það er oft bent á að víða annars staðar dytti engum í hug að ráða fólk til afgreiðslustarfa án þess að það kynni tungumál heimafólks, og óskiljanlegt sé hvers vegna sama regla geti ekki gilt hér. En þetta er ekki sanngjarn samanburður. Enska er lykill að heiminum, og mörg önnur tungumál - í raun flest önnur Evrópumál en íslenska - eru lykill að menningu og vinnumarkaði tugmilljóna samfélaga. En íslenska er gagnslaus nema í 370 þúsund manna samfélagi.
Það er eðlilegt að fólk sem kemur hingað til að vinna og er ekki ákveðið í því að ílendast hiki við að verja miklum tíma og orku í að læra mál sem nýtist því hvergi annars staðar - vitandi að í næstu kreppu verður það kannski óþarft á Íslandi og vísað á dyr. Það er eðlilegt að það vilji frekar læra og nota ensku sem gagnast því víðast hvar, sérstaklega þar sem við höfum ekki metnað til að hafa íslenskuna alls staðar í öndvegi á Íslandi.
Grundvallaratriðið er að við verðum að gera betur. Við verðum að bæta aðgengi að íslenskukennslu og gera fólki kleift að læra íslensku í vinnutímanum, og hvetja það til þess. Við þurfum líka að þróa starfstengd stutt íslenskunámskeið þar sem fólk lærir grundvallarorðaforða á starfssviði sínu en er ekki endilega að beygja nafnorð í öllum föllum eða læra viðtengingarhátt þátíðar.
En fyrst og fremst þurfum við að breyta viðhorfi okkar. Við þurfum að vera jákvæð gagnvart allri íslensku, hversu ófullkomin sem okkur kann að finnast hún, og alls ekki láta skort á íslenskukunnáttu bitna á fólki á nokkurn hátt. Það stuðlar bara að því að fæla fólk frá íslenskunámi og leiðir til þess að hér verða til stórir hópar fólks sem kunna ekki íslensku og einangrast. Það er stórhættulegt, bæði fyrir íslenskuna og fyrir lýðræði í landinu.