kórrétt - kórvilla

Lýsingarorðið kórrétt er ekki gamalt í íslensku og tvær heimildir eigna það Þórbergi Þórðarsyni; Matthías Johannessen í Morgunblaðinu 1965: „Man ég í svipinn eftir orðinu kórrétt sem Þórbergur bjó til úr ensku: correct“, og Halldór Laxness, skv. Peter Hallberg í Tímariti Máls og menningar 1968: „lýsingarorðið mun vera dálítið spaugileg heimatilbúin íslenzk mynd af correct, gerð af Þórbergi Þórðarsyni (skv. bréfi H.K.L. til P.H. dags. 2/10 1966)“. Málfarsbankinn segir reyndar „Líklega er orðið kórréttur komið úr dönsku, korrekt“ en Þórbergur gæti auðvitað eins hafa haft dönskuna sem fyrirmynd. Elstu dæmi um orðið, bæði á tímarit.is og í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans eru frá 1960.

En út frá þessu fór ég að hugsa um nafnorðið kórvilla. Það er töluvert eldra – elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1888 og allnokkur dæmi eru um það frá síðasta áratug 19. aldar. Það kemur fyrir í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 og er þar skýrt 'Hovedfejl, stor Fejl, Grundfejl' sem er sú merking sem það virðist alltaf hafa haft. En orðabækur virðast vera þögular um uppruna orðsins – það kemur ekki fyrir í Íslenskri orðsifjabók. Mér finnst freistandi að ímynda sér að það séu einhver tengsl milli kórrétt og kórvilla en sé ekki hver þau gætu verið – nema Þórbergur hafi haft kórvilla í huga þegar hann tók correct/korrekt inn í íslensku í myndinni kórrétt.