Breytt fallstjórn er engin málspjöll

Meðal þeirra tilbrigða í máli sem fólk ergir sig stundum yfir er breytt fallstjórn sagna. Þetta er ekki nýtt – ég rakst á ýmis forvitnileg dæmi í grein frá 1942:

„Þá tala menn um að pakka einhverju inn, í stað þess að pakka eitthvað inn. […] Þá er sagt, að nú þurfi að vökva blómunum, vökva görðunum, í stað þess að segja: að vökva blómin, vökva garðana [...]. Menn tala og um að [...] framlengja víxlinum, í stað þess að framlengja víxillinn. […] Í einu Reykjavíkurblaðanna var […] komizt svo að orði: „Fleiri mörkum var ekki skorað“, í stað: Fleiri mörk voru ekki skoruð. (Skora það, markið, ekki að skora því, markinu).“

„Ýmsir munu ef til vill ætla, að það séu aðeins fáeinir svonefndir almúgamenn, sem haga svo málfari sínu, er hér hefur verið frá skýrt, en svo er ekki. Menntamenn vorir eru margir á sömu braut. [...] Ágætur íslenzkumaður skrifar í grein einni að flokka þeim saman m. ö. orðum hann lætur sögnina flokka taka með sér þágufall í stað þolfalls, talar um að flokka einhverju, í stað þess að flokka eitthvað. [...] Fyrir svo sem tug ára mundi engum íslenzkumanni hafa dottið þetta í hug.“

Þarna kennir ýmissa grasa. Ég hef aldrei heyrt þolfall með pakka inn og Sigfús Blöndal gefur sögnina upp með þágufalli í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 þannig að það hefur a.m.k. ekki verið nýjung þegar greinin var skrifuð. Aftur á móti kannast ég ekki við þágufall í dæmum eins og skora mörkum og finn ekki önnur dæmi um það en það sem greinarhöfundur vísar til. En í fornu máli og fram á 20. öld var notað þágufall í sambandinu skora einhverjum á hólm og gæti það hugsanlega haft áhrif þarna. Nú er alltaf notað þolfall í því sambandi og aldrei kallað málspjöll.

Ég kannast ekki heldur við þágufall með flokka, en þrátt fyrir það sem greinarhöfundur segir er það engin nýjung. Ég finn nokkur dæmi um það frá 19. öld, það elsta frá 1877, og vel fram á 20. öld. Ég hef ekki heldur heyrt þágufall með vökva en það virðist þó hafa tíðkast fyrir hundrað árum – Sigfús Blöndal gefur sögnina upp með bæði þolfalli og þágufalli og tekur dæmið vökva blóm(um). Aftur á móti er þágufall með framlengja vel þekkt og iðulega amast við því. Elsta dæmi sem ég hef fundið um það er frá 1928.

En þótt þágufall sé ekki notað nú með flokka og vökva, svo að ég viti, ætti sú fallnotkun ekki að koma á óvart. Eðlilegt er að tengja vökva við sagnir eins og brynna og vatna sem báðar taka þágufall. Það er kannski svolítið langsóttara með flokka en þó væri hægt að tengja hana við raða eða skipa (í flokka) sem báðar taka þágufall, eða eitthvað slíkt. Sambærileg skýring á þágufallinu með framlengja liggur ekki eins í augum uppi en hún er samt örugglega til.

Það er nefnilega ekki þannig að slíkar breytingar á fallstjórn stafi af því að um „almúgamenn“ sé að ræða, eða þær megi rekja til fávisku, menntunarskorts, greindarskorts, lítillar námsgetu, eða hreinlega leti. Þvert á móti. Breytingarnar sýna að málnotendur eru að leita – leita að samræmi, leita að fyrirmyndum, leita að kerfi. Við eigum ekki að amast við því þótt sú leit leiði stundum til annarrar niðurstöðu en hjá okkur – fjöldi sagna hefur breytt um fallstjórn frá fornu máli. Við eigum að gleðjast yfir því að þetta sýnir að tungumálið er lifandi og málkerfi fólks virkar. Ef það er ekki fagnaðarefni veit ég ekki hvað það er.