Gluggakistur og sólbekkir

Í Íslenskri orðabók er orðið gluggakista skýrt 'lárétt (tré)sylla innan við og undir glugga (í torfhúsi líkl. þiljað gluggagat innan glerglugga (á 19. öld))'. Seinni hluti skýringarinnar gefur vísbendingu um upprunann. Væntanlega hefur gluggakista upphaflega merkt allan rammann kringum gluggann. Ef hann er smíðaður á gólfi og liggur þar láréttur minnir hann á kistu. Þetta sést vel í gömlum dæmum um orðið. Í Atla eftir Björn Halldórsson, frá 1780, segir: „Þegar Menn eru nu komner 2 Al. haatt yfir Jardvegenn, med alla Bygginguna, þa eru Glugga-Kisturnar innsettar.“ Í Ísafold 1885 segir: „Slíkur vermireitur er þannig tilbúinn, að rekin er saman úr 8-10 þuml. breiðum borðum nokkurskonar gluggakista, sett í hana gler og síðan hvolft ofan yfir moldina.“

Svo er farið að tala um að eitthvað sé í gluggakistunni – „Tjald var dregið fyrir gluggann að innan, og blóm stóðu í gluggakistunni“ segir í Ísafold 1876. Þá er farið að skilja orðið svo að það vísi aðeins til lárétta hlutans, ekki rammans í heild. Einhver dæmi eru þó um annað langt fram á 20. öld. Í grein um gluggaþrif í Samvinnunni 1963 segir: „Þegar sú er viðhöfð, sem hér um ræðir, er gluggakistan þvegin fyrst, opnanleg fög og svo sólbekkurinn.“ Þarna er sem sé farið að tala um lárétta hlutann sem sólbekk. En það orð er eldra og var áður notað í annarri merkingu. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er það skýrt 'Solbænk'. En solbænk í dönsku hefur ekkert með sól að gera heldur er ummyndun úr sålbænk sem merkir 'fremspring af mursten, cement, skiffer el.lign., anbragt udvendig under et vindues underkarm for at lede regnvand væk fra muren' og er komið af Sohlbank í þýsku en Sohl merkir 'grunnur, undirlag'. Þetta er sem sé það sem heitir nú vatnsbretti og er utan við gluggann en ekki inni.

Það er ljóst að framan af var orðið sólbekkur notað í þessari merkingu. Í Tímariti iðnaðarmanna 1928 segir t.d.: „Þegar steypt er upp að gluggunum, mun best að láta vanta til sem nemur breidd járnvinkilsins, en fylla það síðar, um leið og múrbríkin er steypt að utanverðu (sólbekkurinn).“ Orðið var þó aldrei algengt í þessari merkingu og um eða upp úr miðri öldinni virðist merkingin breytast eins og sést glöggt á dæmi úr Sunnudagsblaðinu 1960: „Máninn var kominn upp og lýsti upp hallandi sólbekkinn innan við gluggann.“ Stundum virðist hafa verið gerður sá greinarmunur að gluggakista sé lárétti hluti gluggarammans að neðan, en sólbekkur plata eða bretti sem lagt er þar ofan á. Þetta sést á dæmi úr Tímanum 1961 þar sem steinsmiður er spurður hvað hann smíði helst og svarar: „Til dæmis sólbekki í gluggakistur og alls konar plötur innanhúss.“ En í Tímanum 1967 er trésmiður spurður um helstu verkefni sín og svarar: „Það eru aðallega eldhúsinnréttingar, en svo einnig skápar og sólbekkir, eða gluggakistur.“ Þarna er talin ástæða til að útskýra hvað sólbekkir séu.

Sprenging verður svo í notkun orðsins um miðjan sjöunda áratuginn. Í gamansamri grein í Vikunni 1968 segir: „Gluggakisturnar – fyrirgefið mér, að ég skuli óvart nota svona sveitalegt orð, sólbekkirnir, vildi ég sagt hafa.“ En um svipað leyti er líka farið að nota sólbekkur í merkingunni 'bekkur til að liggja á í sólbaði' eins og sá sem auglýstur er í Morgunblaðinu 1966 og sagður „Mjög léttur og þægilegur með hæðarstillingu.“ Enn seinna var farið að nota orðið í merkingunni 'ljósabekkur' – „Þú verður fallega brún(n) á 10 tímum í Super-Sun sólbekknum“ var auglýst í Dagblaðinu 1980. Það er því ljóst að þótt gluggakista og sólbekkur séu iðulega samheiti í nútímamáli væri það mikil einföldun að líta svo á að þar með væri málið afgreitt.