Menn og manneskjur
Af því að stundum er gagnrýnt að orðið manneskja sé notað þar sem sumum finnst að ætti fremur að nota maður er rétt að minna á að þetta er hvorki uppfinning femínista né Ríkisútvarpsins heldur var alsiða á 19. öld. Í Safni af íslenzkum orðskviðum, fornmælum, heilræðum, snilliyrðum, sannmælum og málsgreinum sem Guðmundur Jónsson prófastur tók saman og Bókmenntafélagið gaf út 1830 er m.a. að finna eftirfarandi (dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans):
- Manneskjan er það stærsta furðuverk í heiminum.
- Manneskjunnar vilji er hennar himnaríki, en verðr opt hennar helvíti.
- Það er herligt að heita manneskja.
- Þrællinn og herrann, þeir eru báðir manneskjur.
Hitt er annað mál að manneskja merkir ekki alltaf alveg það sama og maður. Þannig segir t.d. í Skuld 1878: „Og það er einmitt þetta, sem varðveitir manneskjuna í manninum, ef vér mættum svo segja.“ Lýsingarorðin mannlegur og manneskjulegur merkja ekki heldur það sama – í Skuld 1877 segir: „Mentunin […] er þroski og blómi ins manneskjulega í manninum.“ E.t.v. má segja að maður vísi til tegundarinnar, eða einstaklings af tegundinni, sem fyrirbæris en manneskja fremur til einstaklings sem er gæddur skynsemi og tilfinningum – mennsku. Svo má auðvitað velta fyrir sér hvenær hvor merkingin eigi við, og hvort alltaf sé hægt að nota annað orðið í stað hins.