„Garðstígasetningar“
Mjög fjörug umræða skapaðist um setninguna Aðeins þeir sem þykja vænt um þig heyra þegar þú ert þögul sem var sett inn í Facebook-hópinn Málspjall og spurt hvort væri rétt. Ég svaraði því til (sem og fleiri) að þarna þyrfti að breyta þykja í þykir en að öðru leyti væri setningin málfræðilega rétt þótt vissulega megi deila um hversu lipur hún sé. En mörgum fannst að þarna ætti að vera Aðeins þeim sem þykir vænt um … vegna þess að þykja vænt um tekur þágufallsfrumlag – mér þykir vænt um þig.
En það sem þarna skiptir máli er að þykja vænt um er í tilvísunarsetningu og sögn tilvísunarsetningar getur ekki stjórnað falli á frumlagi aðalsetningarinnar. Hér er tilvísunarsetningin afmörkuð með hornklofum: Aðeins þeir [sem þykir vænt um þig] heyra þegar þú ert þögul. Ef tilvísunarsetningunni er sleppt stendur eftir Aðeins þeir heyra þegar þú ert þögul og þá kemur vel fram að það er sögnin heyra sem ræður fallinu á þeir.
Þetta er auðvelt að skýra með málfræðilegum rökum. En það táknar ekki að tilfinning þeirra sem vilja hafa Aðeins þeim … og láta þykja vænt um stýra fallinu sé röng. Hún er fullkomlega eðlileg og skiljanleg út frá því hvernig við túlkum setningar. Við bíðum ekki með túlkun setningar þangað til henni er lokið, heldur túlkum við hana smátt og smátt. Fyrsta sagnasambandið sem kemur á eftir nefnifallinu þeir er þykja vænt um sem við vitum að á að taka þágufallsfrumlag, og þess vegna flaggar málskynjun okkar á ósamræmi.
Þegar lengra er haldið kemur svo í ljós að þeir er ekki frumlag þykja vænt um heldur heyra sem tekur nefnifallsfrumlag. Það krefst þess að málskynjun okkar bakki og endurskoði upphaflega túlkun á setningunni – og það er ekki alltaf einfalt. Dæmi af þessu tagi eru mjög þekkt og kölluð „garden-path sentences“ á ensku eða „garðstígasetningar“ vegna þess að málskynjunin fer inn á einhvern „stíg“ sem leiðir okkur á villigötur. Þekktasta enska dæmið um þetta, sem er nefnt í ótal bókum, er The horse raced past the barn fell, en fleiri dæmi eru hér.