Út í Hróa og hef ekki guðmund

Orðasambandið út í hött sem merkir 'fráleitt, út í bláinn' tíðkast a.m.k. síðan á 18. öld. Í Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson segir: „Líkingin er óljós en hugsanlega merkir höttur hér 'fjallstindur' og bein merking væri þá 'svara út í fjallið' […]. Önnur og trúlegri er sú skýring að höttur merki hér 'himinn, loft' og samsvarar orðatiltækið þá hinu samræða orðatiltæki svara út í bláinn/loftið […].“ En fyrir nokkrum áratugum var farið að snúa út úr þessu orðasambandi og segja út í Hróa hött. Væntanlega hefur þetta verið gert bæði í gríni og til áhersluauka – það sem er út í Hróa hött er enn fráleitara en það sem er bara út í hött.

Elsta dæmið sem ég hef fundið um út í Hróa hött er í Helgarpóstinum 1982 og þar er meira að segja bætt enn í: „Þetta er allt út í Hróa hött og Marian, eins og Gulli myndi segja.“ Þetta er í kvikmyndagagnrýni eftir Árna Þórarinsson og má geta sér þess til að sá Gulli sem þarna er vitnað til sé Guðlaugur Bergmundsson sem einnig skrifaði kvikmyndagagnrýni í blaðið á þessum tíma, hvort sem hann er upphafsmaður sambandsins út í Hróa hött eða ekki. Þetta samband fór allavega á flug upp úr þessu en fljótlega kom einnig fram styttingin út í Hróa. Bæði þessi sambönd hafa verið notuð jöfnum höndum undanfarin 40 ár.

Í út í Hróa er hötturinn alveg dottinn út úr sambandinu og uppruni sambandsins í raun óskiljanlegur nema þeim sem þekkja söguna. Þarna er orðið til nýtt orðtak. Vegna þess að ég man eftir því þegar farið var að nota út í Hróa hött og út í Hróa tengi ég þetta alltaf við út í hött – en hvað með fólk sem er yngra og hefur alist upp við þessi sambönd? Lítur það á þau sem útúrsnúning eða sem fullgild orðtök, án þess að tengja þau nokkuð við upprunann? Ég veit það ekki, en það væri gaman að fá álit lesenda á því.

Í vangaveltum um þetta fór ég að hugsa um annan útúrsnúning – eða afbökun, ef fólk vill heldur nota það orð – á orðasambandi. Það er þegar sagt er ég hef ekki Guðmund um þetta í merkingunni 'ég veit ekkert um þetta'. Þetta hefur örugglega einnig orðið til í gríni og nokkuð augljóst að sambandið ég hef ekki hugmynd um þetta liggur að baki – þótt hljóðfræðilegur munur á hugmynd og Guðmund sé nokkur eru orðin samt nógu lík til að fólk áttar sig sennilega á merkingunni út frá aðstæðum, enda þótt það þekki ekki sambandið ég hef ekki Guðmund sem ég átta mig ekki á hversu útbreitt er.

Elsta dæmi sem ég hef fundið um þetta er í umræðu um tónlistarstefnur í Morgunblaðinu árið 2000: „Ég hef ekki Guðmund um hvort þetta er „house“ eða „garage“.“ Slæðingur af dæmum er um þetta á netinu, mörg skrifuð hef ekki guðmund sem gæti e.t.v. bent til þess að fólk væri hætt að tengja þetta við nafnið Guðmundur – og hugsanlega við hugmynd líka. Það er sem sé möguleiki að hef ekki guðmund sé orðið að orðtaki sem hefur merkingu sem heild í stað þess að merking þess sé samsett úr merkingu einstakra orða. Ég nota þetta oft sjálfur – áður fyrr sem meðvitað grín en nú held ég að ég noti það sem venjulegt mál við ýmsar aðstæður.

Þarna eru sem sé að verða til eða orðin til tvö ný orðtök – út í Hróa og hef ekki guðmund. Í umræðu um það fyrrnefnda sagði Jón G. Friðjónsson einu sinni: „Ég hef lengi látið útúrsnúninga af þessum toga fara í taugarnar á mér, tel að slík iðja sé til þess fallin að rugla málkennd ungu kynslóðarinnar.“ Ég skil þetta sjónarmið en er því algerlega ósammála. Ég held þvert á móti að nýsköpun af þessu tagi, leikur með tungumálið, sé til þess fallin að auka áhuga á íslenskunni meðal ungs fólks. Það er einmitt það sem hún þarf allra mest á að halda.