Stjak, ýt og hrind

Einar Örn Jónsson íþróttafréttamaður er vel máli farinn og orðheppinn. Í handknattleikslýsingu í gær lýsti hann aðförum leikmanns þannig að þær væru „stjak meira en ýt og alls ekki hrind“. Þarna eru þrjú orð sem ég geri ráð fyrir að flestum þyki ókunnugleg – stjak, ýt og hrind. Þetta eru nafnorð, væntanlega hvorugkynsorð, og augljóslega leidd af sögnunum stjaka, ýta og hrinda.

Orðmyndun af þessu tagi, þar sem sögn er gerð að nafnorði með því að sleppa -a aftan af henni, er algeng í málinu þótt ekki sé alltaf augljóst hvort um slíka orðmyndun er að ræða eða hvort verið er að mynda sögn af nafnorði með því að bæta við -a. En nafnorð eins og grenj og klifr eru augljóslega leidd af sögnum. Þessi orðmyndun er líka algeng í óformlegu máli, t.d. í myndasögum – orð eins og hugs, roðn, grát, hneyksl o.m.fl.

Algengast er þó að nota viðskeyti í þessum tilgangi, t.d. -un eða -ing – orðin stjökun, ýting og hrinding eru öll til í málinu. Tvö þau fyrrnefndu eru vissulega sjaldgæf en öll eru þau í Íslenskri orðabók og skýrð hvert með öðru. Í DV 1981 segir t.d. „Þeir féllu um hvern annan þveran, ýmist með krampa af þreytu eða við minnstu stjökun“ og í Alþýðublaðinu 1973 segir „Eftir miklar ýfingar og ýtingar og tvær fundafrestanir brá ríkisstjórnin svo á það ráð að fresta afgreiðslu málsins“. Orðið hrinding er svo algengt að ástæðulaust er að taka dæmi um það.

En orðið stjak er þó ekki nýsmíði Einars Arnar. Það kemur t.d. fyrir í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og einhver dæmi má finna um það á tímarit.is, t.d. úr Þjóðólfi 1895: „Hélt hann sér mest innanborðs, því hann er orðinn maður háaldraður og vill sem mest leiða hjá sér stjak og óró.“ Einnig kemur orðið fyrir í Tölvuorðasafni.

Orðið ýt er líka til þótt það sé enn sjaldgæfara. Eina dæmi Ritmálssafns Orðabókar Háskólans er úr Sögu Reykjavíkurskóla eftir Heimi Þorleifsson þar sem vitnað er í fundabók íþróttafélagsins Kára í Menntaskólanum í Reykjavík 1908 um orðasmíð skólapilta í nýjum íþróttagreinum: „Í lyftingum er t.d. talað um „ýt, rykk og hnykk“ í staðinn fyrir snörun og pressu.“

Aftur á móti hef ég ekki fundið dæmi um orðið hrind, enda er hrinding miklu algengara og þekktara en bæði stjökun og ýting. Það er samt ekkert að orðinu hrind og þótt yfirleitt lægi vissulega beinna við að nota hið vel þekkta orð hrinding er hrind ekki óeðlilegt í framhaldi af stjak og ýt vegna þess að það er myndað á sama hátt.

Þótt gömul dæmi séu um orðin stjak og ýt í málinu veit ég ekki hvort Einar Örn þekkti þau – og finnst það raunar ólíklegt, miðað við hversu sjaldgæf þau eru. Mér finnst langlíklegast að hann hafi búið orðin stjak, ýt og hrind til á staðnum enda áttu þau miklu betur við í þessu samhengi en stjökun, ýting og hrinding. Þetta er skemmtilegt dæmi um það hvernig frjó orðmyndun og leikur með málið getur lífgað upp á frásögn. Við megum ekki amast við rétt mynduðum orðum á þeim forsendum að þau séu „ekki til“.