Hvaða orð nota konur um sig sjálfar?

Meðal þess sem þarf að huga að í umræðu um mál og kyn er hvernig fólk talar um sig sjálft. Tala karlmenn um sig sem menn eða karla? Tala konur um sig sem menn eða konur – eða manneskjur? Ég skoðaði þetta svolítið í Risamálheildinni sem hefur að geyma 1,64 milljarða orða úr fjölbreyttum textum, nær öllum frá þessari öld. Ég leitaði að samböndunum Ég er mikill ___maður og Ég er mikil ___manneskja þar sem ___ stendur fyrir hvaða fyrripart sem er, og skoðaði kyn mælandans – langoftast er hægt að komast að því með því að skoða textana sem dæmin eru úr. Til samanburðar skoðaði ég líka dæmi um Ég er mikill ___karl og Ég er mikil ___kona.

Setningar af þessu tagi eru heppilegar vegna þess að lýsingarorðið mikil(l) tryggir að í þeim felst oftast sjálfslýsing. Þarna er ekki um að ræða fastmótað starfs- eða hlutverksheiti eins og alþingismaður, sjómaður, formaður eða eitthvað slíkt, heldur mat fólks á dæmigerðum eiginleika sínum. Því eru þessi orð oft frekar sjaldgæf og jafnvel einnota. Það reyndust vera 213 dæmi um Ég er mikill ___maður í safninu. Þar af var kona mælandi í 25 dæmum og af þeim voru 15 úr Alþingisræðum sem þó eru aðeins 13,5% af heildartextamagninu. Um sambandið Ég er mikil ___manneskja var 51 dæmi og kona mælandi í öllum tilvikum. Um Ég er mikil ___kona voru svo 24 dæmi en aðeins fjögur um Ég er mikill ___karl.

Það er athyglisvert að af þeim 25 dæmum um samsetningar með -maður sem konurnar notuðu voru 12 um orðið talsmaður og 7 um orðið stuðningsmaður. Þessi orð eru einmitt ódæmigerð fyrir orð í þessari setningagerð, a.m.k. talsmaður – tákna hlutverk fremur en vera sjálfslýsing. Að auki er ekki hægt að vera bara talsmaður eða stuðningsmaður, heldur verður eitthvað meira að fylgja. Þetta sýnir glöggt að konur nota sjaldnast samsetningar með -maður þegar þær lýsa sjálfum sér. Ef við sleppum talsmaður og stuðningsmaður eru sex dæmi um að konur noti samsetningar með -maður, 51 dæmi um að konur noti samsetningar með -manneskja, og 21 dæmi um að konur noti samsetningar með -kona.

Samkvæmt þessu er maður ekki heppilegt sem kynhlutlaust orð – og manneskja ekki heldur.