Virðing við málnotendur

Í bók sem ég hef verið að skrifa er kafli sem heitir „Virðing við viðmælendur“. Prófarkalesari gerði athugasemd við þetta og vildi breyta því – benti réttilega á að í Málfarsbankanum segir: „Sagt er virðing fyrir, ekki „virðing við“.“ En þarna er ekki nema hálf sagan sögð. Vissulega er sagt bera virðingu fyrir – ég get ekki sagt *bera virðingu við og veit ekki af neinum sem segja það. En bera virðingu fyrir er fast orðasamband og þótt virðing taki með sér forsetninguna fyrir í því þýðir það ekki endilega að sama forsetningin sé notuð í öðrum samböndum.

Við leit á tímarit.is kemur fram á fjórða þúsund dæma um virðing við, það elsta í Þjóðólfi 1850: „vjer gætum þá fyrst að rjettu eðli stjórnarskipunar, og að tilhlýðilegri virðingu við konungsvaldið, ef vjer látum konunginn og alþingi hafa löggjafarvaldið jöfnum höndum.“ Í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1880 segir: „Til virðingar við Frey kendu Svíar kostgripi við göltinn, sem, eins og kunnugt er, var reiðskjóti Freys.“ Í Skólablaðinu 1910 segir: „Hlýðni og virðing við yfirboðna á heimilum og í skólum er eitt af því allra nauðsynlegasta ef uppeldi og stjórn á að verða að gagni.“ O.s.frv.

Vitanlega er fráleitt að halda því fram að virðing við sé „ekki sagt“ – sé „rangt“. Það er augljóslega mjög algengt og á sér langa hefð. En ekki nóg með það – virðing við merkir ekki alveg það sama og virðing fyrir. Að bera virðingu fyrir merkir 'að líta upp til, bera lotningu fyrir' eða eitthvað í þá átt. En virðing við merkir fremur 'kurteisi, tillitssemi' eða eitthvað slíkt. Það er t.d. sagt „Af virðingu við aðstandendur þess látna verður nafn hans ekki birt að svo stöddu“. Þarna væri alveg óviðeigandi að segja „Af virðingu fyrir aðstandendum þess látna verður nafn hans ekki birt að svo stöddu“.

Þess vegna er virðing við fullkomlega jafnrétt og virðing fyrir – þar sem við á. Þetta er gott dæmi um hversu varasamt það er að setja fram afdráttarlaus og skýringalaus boðorð um rétt og rangt án þess að hugsa málið til enda. Það er ekki málrækt.