Utankjörfundur

Orðið utankjörfundaratkvæðagreiðsla er eitt lengsta orð málsins, 29 bókstafir og 10 atkvæði. Sé það sett í fleirtölu með greini er það utankjörfundaratkvæðagreiðslurnar, 33 bókstafir og 11 atkvæði. Öllu lengri verða íslensk orð varla eins og lýst er í grein Magnúsar Snædal, „Hve langt má orðið vera“, í Íslensku máli 1992. Orðið er fullkomlega gagnsætt, merkir 'atkvæðagreiðsla utan kjörfundar' – þegar fólk greiðir atkvæði fyrir kjördag (áður en kjörfundur hefst) eða annars staðar en á þeim stað þar sem það er á kjörskrá. Þetta orð er a.m.k. 70 ára gamalt í málinu. Oft er líka notað orðið utankjörstaðaatkvæðagreiðsla í sömu merkingu – það er jafnmörg atkvæði en einum bókstaf styttra.

En utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefur svo getið af sér afkvæmið utankjörfundur, sem er a.m.k. 20 ára gamalt. Í Fréttablaðinu 2002 er fyrirsögnin: „Utankjörfundur: Ríflega 1.900 manns hafa kosið“ og í fréttinni er talað um „atkvæðagreiðslu utan kjörfundar“. Í DV 2004 segir: „Utankjörfundur vegna kjörs forseta íslands hófst þann 1. maí hjá sýslumönnum og hreppstjórum.“ Í kosningalögum segir í 80. gr.: „Kjörfund skal setja á kjörstað kl. 9 árdegis, en yfirkjörstjórn getur þó ákveðið að kjörfundur skuli hefjast síðar, þó eigi síðar en kl. 12 á hádegi.“ Atkvæði greidd á öðrum stað eða tíma eru greidd utan kjörfundar – en í lögunum er ekki til neitt sem heitir utankjörfundur.

Þetta er skemmtilegt dæmi um það hvernig orð æxlast af orði. Fólki hefur fundist langlokan utankjörfundaratkvæðagreiðsla of stirð og viljað fá liprara orð í staðinn – utankjörfundur er rúmlega helmingi styttra, 14 bókstafir í stað 29, og helmingi færri atkvæði, fimm í stað tíu. Það má kannski bera þetta saman við bæjarnafnið Utanverðunes í Hegranesi í Skagafirði. Væntanlega hefur einhvern tíma verið sagt hann býr í utanverðu Nesi (þ.e. Hegranesi) en svo hefur fólk farið að skynja Utanverðunesi sem eina heild og úr því orðið bæjarnafn.

Auðvitað er Utanverðunes fullkomlega „órökrétt“ orð, ef út í það er farið – og sama máli gegnir um utankjörfund. En það skiptir bara engu máli. Orðið þjónar ákveðnum tilgangi og við vitum hvað það merkir. Krafa um að tungumálið sé alltaf „rökrétt“ er krafa um gelt og dautt mál.