Gengisbreyting lýsingarorða
Eins og kunnugt er breytist orðaforði málsins og orðanotkun ekki aðeins á þann hátt að nýyrði og tökuorð bætist við; einnig koma til breytingar á merkingu gamalla orða, sem verið hafa í málinu frá fornu fari. En merkingarbreytingar eru hvorki jafn áberandi né sama eðlis í öllum orðflokkum. Nafnorð eru oft heiti ákveðinna hluta, og sagnir eiga oft við einhverja verknaði; það er því oft auðveldara að negla merkingu þeirra niður, ef svo má segja, en t.d. merkingu lýsingarorða.
Hvaða lýsingarorð við notum byggist nefnilega oft á huglægu mati okkar, hvers og eins, en tengist engu sérstöku í umhverfi okkar. Ef við sjáum mann á hlaupum, getum við væntanlega orðið sammála um að það sem við sjáum sé maður, og hann sé að hlaupa, því að við getum tínt til ákveðin sýnileg eða áþreifanleg atriði sem einkenni fyrirbærið mann og athöfnina að hlaupa. En ef okkur greinir á um hvort einhver bíll sé góður, ágætur, sæmilegur, frábær, lélegur eða æðislegur, þá getum við ekki skorið úr því á sama hátt, þ.e.a.s. með tilvísun til ákveðinna ytri einkenna.
Það er ekkert samkomulag um það hvernig bíll þurfi að vera til að geta talist góður, ágætur o.s.frv. Það má að vísu hugsa sér slíkt samkomulag, t.d. að þeir sem prófa bíla og gefa þeim umsagnir fyrir blöðin kæmu sér saman um nákvæmlega hvernig góður bíll ætti að vera, ágætur bíll o.s.frv. En þá værum við búin að breyta þessum lýsingarorðum í eins konar fræðiheiti á þessu sviði, og þetta hefði engin áhrif á notkun þeirra í öðru samhengi. Og ef verið væri að tala t.d. um bók, væri þessi leið líka ófær.
Þetta veldur því að merking og notkun lýsingarorða, einkum þeirra sem tákna magn eða gæði, er alltaf á dálitlu flökti. Ég sá skýrt dæmi um það um daginn þegar ég rak augun í einkunnastiga þann sem notaður er í plötudómum NT. Röð lýsingarorða í þeim stiga var nefnilega ekki í samræmi við þá merkingu sem ég hef lagt í orðin. Bestu plöturnar fengu þar einkunnina meistaraverk, síðan kom frábært og mjög gott, og hef ég ekkert við það að athuga; en síðan komu einkunnirnar gott, ágætt og sæmilegt, í þessari röð ofan frá. Og það var staða orðsins ágætt í þessari röð sem kom mér á óvart.
Það er ekki ýkja langt síðan ágætur var eitt sterkasta lýsingarorðið, sbr. það að efsti hluti einkunnastiga í skólum nefnist ennþá ágætiseinkunn. En nokkuð er síðan orðið fór að falla í verði, og mig rámar í að fyrir nokkrum árum hafi verið deilt um það í blöðum hvort væri betra, ágætt eða mjög gott. Samkvæmt þessum einkunnastiga virðist ágætt meira að segja komið niður fyrir gott, eitt og sér, hvað þá mjög gott, og er bara næst fyrir ofan sæmilegt. Örlög þessara tveggja orða, ágætur og sæmilegur, hafa því orðið svipuð, því að verðfall lýsingarorða er engin ný bóla. Orðið sæmilegur merkti að fornu 'sá sem sæmir einhverjum', og það var því miklu betra þá en nú að vera sæmilegur.
En það er oft erfitt að gera sér grein fyrir því hvort og að hve miklu leyti merking lýsingarorðs hefur breyst. Það er vegna þess að notkun lýsingarorðs byggist á huglægu mati notandans, eins og áður sagði; og við getum ekki alltaf verið viss um hvert mat hans er. Það má taka dæmi af orðinu frábær, sem ennþá virðist halda stöðu sinni ofarlega eða efst í stiganum. En þetta orð hefur ekki alltaf merkt það sem það merkir nú, a.m.k. ekki eingöngu. Í fornmálsorðabókum er það sagt merkja annaðhvort 'ágætur' eða 'óvenjulegur'. Oft er það svo að ekki er hægt að ráða af samhenginu hvort á við.
Það á t.d. við um eftirfarandi dæmi úr Reisubók Jóns Indíafara, sem rituð er á seinni hluta 17. aldar, en þar segir á einum stað: „Kvinna hans tók fegins hendi við mér og sagði mig Guði velkominn með frábæru blíðlæti.“ Hér geta báðar merkingarnar staðist. Hægt er að hugsa sér að Jón sé þarna að láta í ljós ánægju sína með móttökurnar, og orðið sé notað u.þ.b. í nútímamerkingu. En hitt er líka til, að þarna sé aðeins um að ræða hlutlausa lýsingu þess að blíðlæti kvinnunnar hafi verið óvenju mikið.
Á öðrum stað segir Jón svo: „Og er þau litu í brunninn, gáfu þau mikið hljóð af sér og sögðu, að þar flyti eitt dautt meybarn í brunninum. Slíkt frábært tilfelli barst skyndilega um borgina ...“ Tæplega er ástæða til að ætla að Jón Indíafari hafi haft svo sérkennilegan húmor að honum hafi þótt þetta fyndið, heldur mun frábært þarna merkja 'óvenjulegt'.
(Þessi pistill var upphaflega fluttur í útvarpsþættinum Daglegt mál sumarið 1984.)