Einelti og að einelta

Orðið einelti er mjög algengt í nútímamáli og kemur fyrir í ýmsum samböndum – talað er um alvarlegt einelti, gróft einelti, mikið einelti, verða fyrir einelti, þola einelti, beita einelti, gerendur eineltis, þolendur eineltis, fórnarlömb eineltis og margt fleira. Orðið er gamalt í málinu en lengst af kom það nær eingöngu fyrir í sambandinu leggja í einelti. Undantekningar eru örfáar, t.d. „þá finst mér ástæða til að átelja verðlagsnefndina, fyrir alveg óskiljanleg mistök og einkennilegt einelti við mjólkursöluverðið“ í Landinu 1916 og „Þetta var upphaf eineltis, sem átti eftir að taka á sig æ ískyggilegri mynd“ í Morgunblaðinu 1969. Dæmi eru um að einelti sé haft í kvenkyni, og kvenkynsmyndin einelta kemur einnig fyrir í fáeinum gömlum dæmum, þ. á m. einu frá um 1500.

Árið 1975 lagði Halldór Halldórsson prófessor til að orðið einelti yrði tekið upp sem þýðing á interception í flugmáli, og sú merking orðsins er gefin í FlugorðasafniÍðorðabankanum). Um þessa tillögu sagði hann: „Það má vera, að sumum virðist það furðudjarft að taka orð, sem aðeins er notað í einu orðasambandi, í þessu tilviki að leggja einhvern í einelti, og gefa því nýja merkingu. Ég skil þetta sjónarmið vel, en er þó ekkert hræddur við slíkar nýmyndanir. […] Við nýyrðamyndun verður að beita flestum tiltækum ráðum. Orð úr orðtökum eru að þessu leyti enginn helgur dómur.“ Halldór hefði varla lagt þetta til ef orðið hefði þá verið farið að breiðast út í öðrum samböndum en með leggja.

En um eða rétt fyrir 1980 var orðið slitið frá sögninni leggja og farið að nota það sem íðorð í uppeldisfræði og fleiri greinum sem samsvörun við mobbing (eða bullying) á ensku. Í Dagblaðinu 1981 segir „Þá er sagt að fjölskylda hans hafi hjálpað honum að byggja upp þennan blekkingavef í því skyni að losa hann úr eineltinu“, og í Tímariti Máls og menningar 1982 segir „Einar Hjörleifsson skrifaði um einelti og stríðni í skólanum“. Í NT haustið 1984 er opnugrein sem heitir „Er barnið þitt beitt ofbeldi í skólanum?“ og þar kemur orðið einelti fyrir í ýmsum samböndum þannig að það er greinilega komið í umferð sem íðorð. Dæmum um orðið fer svo mjög ört fjölgandi á tíunda áratugnum og einkum á þessari öld.

Stundum bregður sögninni einelta einnig fyrir. Elsta dæmið um hana er í „Rökfræði“ Arnljóts Ólafssonar í Tímariti Hins íslenzka bókmentafélags 1891, en merkingin er þar nokkuð önnur en í nafnorðinu. En í Íslendingi 1919 segir „Virðist ekkert annað mál komast að hjá Degi sjálfum, þegar hann er að einelta Björn Líndal“. Þarna merkir sögnin greinilega 'leggja í einelti'. Sama máli gegnir um dæmi úr Neista 1950: „Ein af starfsaðferðum kommúnista er að einelta forystumenn Alþýðufl.“, og úr Lesbók Morgunblaðsins 1963: „Hann eineltir okkur — andskotinn!“ Fáein dæmi eru svo frá síðustu 30 árum, eftir notkun nafnorðsins einelti jókst. Halldór Halldórsson stakk reyndar upp á sögninni einelta sem þýðingu á intercept árið 1975 en sú tillaga virðist ekki hafa hlotið hljómgrunn.

En sögnin einelta er sjaldgæf enn sem komið er og kemur mörgum spánskt fyrir sjónir eins og aðrar nýjungar í máli. Stundum er hún kennd við barnamál: „Einelti er svo mikið rætt í skólunum að börnin hafa mörg hver gert nafnorðið að sögn og hafa ófáir kennarar brosað í laumi yfir orðavali nemenda sinna sem segja „Hann var að einelta hana““ segir í Fréttatímanum 2012. En ekki verður séð að neitt sé athugavert við þessa sögn. Samsettar sagnir með -elta sem síðari lið eru til í málinu, s.s. hundelta. Því er líka oft haldið fram að íslenska sé „sagnamál“, og betra sé að nota eina sögn en samband sagnar og nafnorðs ef þess er kostur – tala um að kanna frekar en gera könnun, rannsaka frekar en framkvæma rannsókn, o.s.frv. Ég er ekki að leggja til að við hættum að tala um að leggja í einelti – en er ekki ágætt að eiga kost á að nota sögnina einelta í staðinn?

Einnig veltir fólk stundum fyrir sér hvaða orð sé heppilegt að nota um gerendur eineltis. Ýmis orð hafa verið notuð, s.s. hrekkjusvíntuddieineltishrotti o.s.frv. en í ljósi þess að einelti er nú notað sem íðorð eins og áður segir væri heppilegt að eiga kost á að nota íðorð sem svarar nákvæmlega til þess um gerendur. Ég hef stungið upp á orðinu eineltir. Það er lipurt og hefur skýr tengsl við einelti. Í almennu máli er auðvitað hægt að halda áfram að nota hrekkjusvín og önnur orð sem áður er vísað til.