Enginn dagur eins
Í ábendingunum Gætum tungunnar sem birtust upphaflega í dagblöðum 1982 segir:
- Sagt var: Í þessari vinnu er enginn dagur eins.
- Rétt væri: Í þessari vinnu eru engir tveir dagar eins.
- Eða: Í þessari vinnu er enginn dagur sem annar.
Þetta sýnir að orðalag af þessu tagi, þ.e. enginn dagur er eins, hefur verið farið að láta á sér kræla fyrir 40 árum – annars hefði ekki þótt ástæða til að vara við því. Athugun sýnir að þetta orðalag er a.m.k. 70 ára gamalt í málinu og virðist hafa farið að breiðast nokkuð út á áttunda áratug síðustu aldar, en þó einkum á síðasta aldarfjórðungi.
Í Heimilisritinu 1951 segir: „Ég hef sagt, að ferðalög okkar hafi verið viðburðasnauð, og þó var enginn dagur eins.“ Í Vísi 1969 segir: „Mér finnst þetta tilbreytingarríkt og enginn dagur er eins.“ Í Alþýðublaðinu 1971 segir: „En enginn er eins.“ Í Kirkjuritinu 1977 segir: „Og svo auðug er sköpun Guðs að enginn dagur er eins.“ Í DV 1983 segir: „Stíllinn er hið djúpa ego þar sem enginn er eins.“ Í Tímanum 1996 segir: „Það er enginn eins.“ Í DV 1996 segir: „hver þeirra hefur sinn persónuleika og það er enginn eins.“ Eftir þetta fer dæmum ört fjölgandi.
Mörgum finnst setningar af þessu tagi ófullkomnar vegna þess að eins hljóti að kalla á samanburð sem vanti í setninguna – eins og hvað? En það eru í sjálfu sér ekki nægileg rök til að hafna þessu orðalagi vegna þess að í málinu má finna ýmislegt sambærilegt sem þykir gott og gilt. Í setningu eins og það eru allir jafnir má spyrja jafnir hverju? Svipað má segja um dæmi eins og allir eru líkir og systurnar eru ólíkar. Stundum er innbyrðis bætt við til að gera setningarnar ótvíræðar, allir eru líkir inbyrðis, systurnar eru innbyrðis ólíkar, en það er ekki nauðsynlegt – setningarnar skiljast yfirleitt án þess.
Setningar á við enginn er eins merkja ævinlega 'enginn er eins og annar slíkur' – enginn dagur er eins og annar dagur, enginn maður er eins og annar maður o.s.frv. Viðmiðið er í raun innbyggt í eins, alveg á sama hátt og það er innbygt í ólíkar í systurnar eru ólíkar sem merkir 'systurnar eru ólíkar hvor/hver annarri'. Í báðum tilvikum er hægt að breyta samanburðinum með því að nefna viðmiðið sérstaklega – enginn dagur er eins og brúðkaupsdagurinn, systurnar eru ólíkar mömmu sinni (sem segir ekkert um hvort systurnar séu líkar eða ólíkar hvor/hver annarri). En sé viðmiðið ekki nefnt eru setningarnar túlkaðar þannig að það sé innbyggt.
Það er sem sé ekki hægt að hafa það á móti setningum á við enginn dagur er eins að þær séu „órökréttar“ eða eigi sér ekki hliðstæðu í málinu. Hins vegar er ekki langt síðan þetta orðalag fór að breiðast út og þess vegna hljómar það ankannanlega í eyrum margra sem ekki hafa alist upp við það. Ég lét þetta lengi vel fara í taugarnar á mér og skil vel fólk sem sama gildir um. En hér gildir að sýna umburðarlyndi gagnvart mismunandi málvenjum þótt þær falli ekki að manns eigin málkennd. Þetta orðalag er orðið fast og útbreitt í málinu og ekki ástæða til að berjast gegn því. Hér finnst mér eiga við að vitna í sjálfan mig:
„Ef tiltekin nýjung hefur komið upp fyrir 20 árum eða meira, er farin að sjást í rituðu máli, nokkur fjöldi fólks hefur hana í máli sínu, og börn sem tileinka sér hana á máltökuskeiði halda henni á fullorðinsárum, finnst mér mál til komið að viðurkenna hana sem málvenju og þar með „rétt mál“. Það þarf ekki endilega að þýða að hún sé talin æskileg í hvaða málsniði sem er, en það þýðir að hún er ekki fordæmd og fólk sem hefur hana í máli sínu er ekki litið hornauga eða hneykslast á því.“ Það er ljóst að þetta orðalag uppfyllir öll framangreind skilyrði og vel það. Málfarsbankinn segir líka: „Vel gengur að segja engir dagar eru eins.“