Finnast vænt um
Á morgunyfirferð minni um vefmiðla rakst ég á fyrirsögnina „Lykilatriði að finnast vænt um starfsfólkið“ á Vísi. Þegar ég leit aftur á síðuna nokkru seinna var búið að breyta fyrirsögninni – nú er hún „Lykilatriði að þykja vænt um starfsfólkið“. Upphaflega gerð má þó enn sjá í slóðinni á fréttina. Þetta virðist ekki mikil breyting – sagnirnar finnast og þykja eru svipaðrar merkingar og oft hægt að skipta annarri út fyrir hina, þótt mörgum finnist/þyki þykja heldur formlegri. Þegar að er gáð er þó ýmislegt sem greinir þær að.
Það er ekki hægt að nota finnast ópersónulega – við segjum þetta þykir gott en ekki *þetta finnst gott. Það er hægt að nota finnast um bæði andlega og líkamlega tilfinningu, en þykja bara um andlega – við getum sagt mér fannst ég heyra hljóð og mér fannst vera komið við mig en setningar eins og mér þótti ég heyra hljóð eða mér þótti vera komið við mig hljóma eins og þær séu úr þjóðsögum. Ýmis föst orðasambönd eru líka bundin við aðra sögnina – við segjum nú þykir mér týra en ekki *nú finnst mér týra. Ýmislegt fleira mætti nefna.
En hvers vegna var Vísir að skipta um sögn í áðurnefndri fyrirsögn? Ég hef ekki fundið dæmi um það í málfræðibókum eða málfarspistlum að mælt sé með því að segja þykja vænt um frekar en finnast vænt um. Einu dæmin sem ég hef fundið um að amast sé við finnast vænt um eru frá Kristjáni skáldi frá Djúpalæk. Í viðtali í Lesbók Morgunblaðsins 1969 sagði hann: „Þá hefur fleira sært mig mjög, svo sem „mér finnst“ allur fjandinn, „mér finnst vænt um“.“ Og í grein í Degi 1983 sagði hann: „Hættið að segja „mér finnst vænt um e-ð“, segið heldur „mér þykir vænt um e-ð“.“
Svo er gaman að sjá fyrirsögnina „Fólki finnst vænt um íslenskuna“ í frásögn DV af Málræktarþingi 2002. Þetta virðist vera endursögn á orðum Ara Páls Kristinssonar, þáverandi forstöðumanns Íslenskrar málstöðvar – en í fréttinni sjálfri, þar sem haft er orðrétt eftir Ara, segir hann: „Meðan almenningur í landinu hefur áfram svona mikinn áhuga á íslensku, þykir vænt um hana og finnst hagfelldara að nota hana en önnur tungumál þá er ekki ástæða til að óttast um framtíð tungunnar“.
Vissulega er þykja vænt um mun eldra, a.m.k. frá 16. öld, en elstu dæmi um finnast vænt um eru frá því upp úr 1940. En sambandið finnast vænt um stríðir ekki gegn málkennd minni og ég hef grun um að ég hafi notað það sjálfur áður fyrr en hætt því vegna þess að einhvers staðar hafi verið amast við því – annaðhvort í skóla eða kannski í þættinum Daglegt mál í útvarpinu. En nú finnst mér sjálfsagt að fólk haldi því máli sem það er alið upp við og hefur vanist. Þess vegna fannst mér vænt um að sjá finnast vænt um í upphaflegu fyrirsögninni og hefði viljað halda því.
(Aukinn og endurskoðaður pistill frá 2020.)