Að stíga á stokk

Orðasambandið stíga á stokk var algengt þegar í fornu máli og kom áður fyrr eingöngu fyrir í tengslum við heitstrengingar – talað var um að stíga á stokk og strengja þess heit að … Jón G. Friðjónsson segir í Merg málsins: „Stokkur kann að merkja hér 'frambrún öndvegis' […] og vísar þá líkingin til þess að er menn kveðja sér hljóðs standa þeir upp og taka sér gjarnan stöðu á einhverri upphækkun. Annar kostur er sá að stokkur vísi til þröskulds sem tákns heimilis […].“ Hvort sem heldur er vísar stíga á stokk til þess að staðið er á einhvers konar upphækkun.

Undanfarna áratugi hefur þetta samband þó iðulega verið notað án tengsla við heitstrengingar, um það að 'stíga á svið' eða 'hefja einhvern viðburð'. Elsta dæmi sem ég hef fundið um þetta er í Skólablaðinu 1944: „Það stendur heima, að við erum rétt nýsetzt, þegar Hallgrímur Lúðvíkss. formaður Fjölnis, stígur á stokk og setur dansleikinn.“ Þetta er þó einstakt dæmi því að það næsta kemur ekki fyrr en í Alþýðublaðinu 1975: „Síðan opnaðist aðalsviðið, líkt og blóm, og Mick Jagger steig á stokk.“

Auk þessa má nefna dæmi úr myndatextum. Í Alþýðublaðinu 1958 er sagt frá tónleikum Vincenzo Maria Demetz (sem síðar hét Sigurður Demetz Franzson) á Raufarhöfn og birt mynd af honum þar sem hann stígur á borðstokk báts – í myndatexta segir „Demetz stígur á stokk“. Í Vísi 1970 er sagt frá þátttöku Nixons þáverandi Bandaríkjaforseta í kosningabaráttu og birt mynd af honum standandi á einhverri upphækkun með textanum „Nixon stígur á stokk“. Í Vestfirska fréttablaðinu 1987 er mynd af manni standandi á kassa eða steini og í myndatexta segir: „Kristján Jónsson stígur á stokk að Svarfhóli í Álftafirði og útlistar búskaparhætti á uppvaxtarárum sínum.“

Eftir 1980 fer dæmum um nýja merkingu sambandsins að fjölga – í Þjóðviljanum 1983 segir „Stuðmenn munu stíga á stokk að nýju í Atlavík um Verslunarmannahelgina en það er í fyrsta sinn sem hljómsveitin kemur fram síðan um áramót“ og í DV 1984 segir „Gammarnir, eða réttar sagt meirihluti þeirra, stigu á stokk og fluttu mönnum nokkra ópusa“. Dæmum um stíga á stokk fer sífellt fjölgandi á níunda og tíunda áratugnum og á fyrsta áratug þessarar aldar eru þau 20 sinnum fleiri en á áttunda áratugnum. Varla hefur heitstrengingum fjölgað svo mjög og sennilegt að meginhluti dæmanna sé um nýju merkinguna.

Ég skil vel að þeim sem ólust upp við hefðbundna merkingu sambandsins stíga á stokk – eins og ég gerði – hugnist ekki þessi merkingarbreyting. En hér þarf að hafa í huga að hefðbundna merkingin er ekki upprunaleg – hún er líking. Heitstrenging felur ekki í sér að stigið sé á neinn stokk í bókstaflegri merkingu. Nýja merkingin er einnig líking, bara öðruvísi líking, og í raun má segja að sambandið hafi þar bókstaflegri merkingu en í hefðbundnu merkingunni. Úr því að sambandið stíga á stokk mátti fá breytta merkingu í formi líkingar á sínum tíma, er þá eitthvað á móti því að merkingin breytist aftur?

Það sem er á móti því er auðvitað hefðin. Það er margra alda hefð fyrir eldri merkingunni og skiljanlegt að mörgum sé eftirsjá í henni. En nú er komin a.m.k. 40 ára hefð fyrir nýju merkingunni. Það þýðir að búast má við að meginhluti fólks undir fimmtugu, og þar með meirihluti landsmanna, hafi alist upp við hana. Fyrir því fólki hefur stíga á stokk fyrst og fremst merkinguna 'stíga á svið' þótt trúlegt sé að margt af því kannist líka við eldri merkinguna. Þetta fólk hefur fullan rétt á að nota sambandið í þeirri merkingu sem það ólst upp við – eins og við hin höfum rétt á að halda áfram að nota það í eldri merkingunni. En það er bæði ástæðulaust og vonlaust að reyna að berja gömlu merkinguna inn í fólk.