Ég þakka þeim sem hlýddu
Síðasta þætti Verbúðarinnar lauk með kveðju Jóns Hjaltalín, „Ég þakka þeim sem hlýddu“. Þessi kveðjuorð heyrðust oft áður fyrr, ekki síst í þáttunum Um daginn og veginn sem voru á dagskrá útvarpsins um áratuga skeið og í útvarpsumræðum frá Alþingi. Fólk virðist reyndar hafa tengt þau sérstaklega við útvarpið eins og sést á því að í Morgunblaðinu 1947 segir: „Og þökkum þeim sem hlýddu, eins og menn segja, sem tala í útvarpið.“ Í sama blaði segir 1951: „Svo þakka jeg þeim, sem hlýddu, eins og útvarpslesararnir segja, og kveð með kurt og pí.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1965 segir: „Ég segi eins og kallarnir í útvarpinu: Ég þakka þeim sem hlýddu.“
Þessi kveðjuorð voru sem sé mjög kunnugleg í eyrum mínum og minnar kynslóðar en ég veit ekki hversu vel ungt fólk þekkir þau, enda hefur Um daginn og veginn ekki verið á dagskrá síðan 1999, og á tímarit.is eru nánast engin dæmi frá þessari öld um þakka þeim sem hlýddu. Notkun alþingismanna á þessum kveðjuorðum í útvarpsumræðum virðist líka hafa dregist mjög saman. Ég held samt að sú tvíræðni sem kveðjuorðin höfðu í samhengi Verbúðarinnar hafi náð til fólks á öllum aldri. Það hafði reyndar aldrei hvarflað að mér að sögnin hlýða hefði aðra merkingu en 'hlusta á' í þessari kveðju, en þarna fór ekki hjá því að hin merking sagnarinnar, 'gera það sem manni er sagt að gera', kæmi einnig upp í hugann.
En í umræðum um þetta kom fram að sumum fannst eitthvað vanta á kveðjuorðin – töldu að þeim sem hlýddu hlyti að vera stytting á þeim sem hlýddu á. Þetta er skiljanlegt því að í merkingunni 'hlusta á' tekur hlýða alltaf með sér forsetninguna á. Við getum ekki sagt *ég hlýddi ræðunni heldur verðum að segja ég hlýddi á ræðuna. Það má líka finna nokkur dæmi í þingræðum og á netinu um að sagt sé ég þakka þeim sem hlýddu á og þó frekar ég þakka þeim sem á hlýddu. Vitanlega er ekkert að því, en hins vegar er rétt að athuga að áður var hægt að nota hlýða án forsetningar í merkingunni 'hlusta á'. Það eru t.d. um 300 dæmi um sambandið hlýða messu á tímarit.is, og rúm 30 um að hlýða máli einhvers.
Um þetta eru þó sárafá dæmi frá síðustu 30-40 árum þannig að sá möguleiki að nota hlýða í merkingunni 'hlusta á' án forsetningar virðist vera horfinn úr málinu. En þetta þýðir að kveðjuorðin ég þakka þeim sem hlýddu eru ekki stytting, heldur er sögnin hlýða þar notuð eins og hægt var að gera þegar þessi kveðja mótaðist, þótt það sé varla hægt lengur. Eins og iðulega gerist með föst orðasambönd heldur kveðjan sínu formi þótt hún sé ekki lengur í samræmi við venjulega málnotkun. Sem betur fer – annars hefði sú stórkostlega tvíræðni sem hún hafði í Verbúðinni ekki skilað sér.