Þáverandi eða þáverðandi?

Í dag sá ég í blaði auglýsingu um skráningu á viðburð sem á að fara fram í mars. Í auglýsingunni stóð: „Tekið verður mið af þáverandi sóttvarnarreglum hvað fjölda gesta í sal varðar.“ Ég staldraði við orðið þáverandi. Það er svo sem augljóst hvað það merkir í þessu samhengi – sem sé þær reglur sem verða í gildi þegar viðburðurinn fer fram, hverjar sem þær verða. En er hægt að nota orðið þáverandi á þennan hátt?

Skýringin á þáverandi í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'í stöðu eða hlutverki á vissum tíma, sem nú er liðinn'. Þetta held ég að samræmist venjulegri notkun orðsins – það vísar til þess sem er liðið eins og orðið þá gerir venjulega í samsetningum. Við erum ekki í vafa um að þátíð vísar til liðins tíma og sama held ég að gildi um þágildandi, þálifandi, þáþrá og fleiri orð. Í Íslenskri orðabók er atviksorðið þá skýrt 'á þeirri stund, í það skiptið (einkum um liðinn tíma)'.

En þótt þá virðist oft tengjast liðnum tíma í huga málnotenda getur það auðvitað vísað til ókomins tíma líka. Ég get t.d. sagt ég varð fimmtugur árið 2005 og þá hélt ég veislu en einnig ég verð sjötugur árið 2025 og þá ætla ég að halda veislu. Er þá nokkuð að því að nota þáverandi um ókominn tíma þegar samhengið sýnir glögglega að ekki er vísað til liðins tíma eins og í dæminu sem ég nefndi í upphafi? Væri sú notkun ekki fullkomlega rökrétt?

Jú, vissulega væri hún það. En eins og hér hefur oft verið lögð áhersla á er tungumálið alls ekki alltaf „rökrétt“ – og á ekki að vera það. Það sem hér skiptir máli er að þessi notkun orðsins styðst ekki við málvenju. Það er málvenja að þáverandi vísi til liðins tíma og eðlilegt og æskilegt að halda sig við það. Finnist fólki æskilegt að hafa sérstakt orð fyrir þá merkingu sem um er að ræða í áðurnefndri auglýsingu kæmi alveg til greina að búa til orðið þáverðandi til að ná henni.