Áhugi á eða áhugi fyrir?

Með nafnorðinu áhugi tíðkast tvær forsetningar, á og fyrir. Ýmist er sagt ég hef áhuga á þessu eða ég hef áhuga fyrir þessu. Þegar tíðniþróun þessara sambanda er skoðuð á tímarit.is kemur áhugavert mynstur í ljós. Um miðja 19. öld er áhugi á yfirgnæfandi en notkun áhugi fyrir eykst á síðustu áratugum aldarinnar og fram á fjórða áratug tuttugustu aldar, þegar dæmi um áhugi á eru næstum 70% af samanlögðum fjölda um orðasamböndin bæði.

En á fimmta áratugnum fer dæmum um áhugi fyrir að fækka hlutfallslega og eru komin niður í um 5% af heildinni um aldamót og hafa haldist það síðan. Eins og sjá má á meðfylgjandi súluriti er kúrfan nokkurn veginn samhverf nema áratugurinn 1860-1869 ruglar hana aðeins, en heildarfjöldinn er þá svo lítill að ekki þarf mörg dæmi til að breyta myndinni.

Hvernig stendur á því að sambandið áhugi fyrir sækir svona jafnt og þétt á í 5-6 áratugi en hnignar svo álíka jafnt og þétt næstu 5-6 áratugi þar á eftir? Ég veit það ekki, en hugsanlegt er að viðsnúninginn í notkun sambandanna megi rekja að einhverju leyti til málstýringar málvöndunarmanna. Mig rámar í að hafa sagt áhugi fyrir þegar ég var strákur. En einhvern tíma heyrði ég, líklega í þættinum Daglegu máli í útvarpinu kringum 1970, að það ætti að segja áhugi á – og tók það upp, enda var ég mikill málvöndunarmaður á þeim tíma. Þótt það hafi breyst held ég mig enn við áhuga á.

Í Morgunblaðinu 1963 er rætt um orðalag „sem er orðið mjög algengt bæði í blöðum og útvarpi. Það er „áhugi fyrir einhverju". Hið rétta er auðvitað: „áhugi á“, og hefði enginn fáfróður almúgamaður sagt annað fyrir fáum áratugum, en nú segja og skrifa sprenglærðir menn „áhugi fyrir“, og virðist það í engu særa máltilfinningu þeirra. Vanti þá með öllu máltilfinningu, ættu þeir þó að reyna að hugsa rökrétt, áður en þeir tala eða skrifa.“

Í grein eftir Gísla Pálsson í Þjóðviljanum 1978 segir: „Dæmi eru þess að umsjónarmenn [Daglegs máls] hafa tekið uppá þeim stráksskap að viðurkenna daglegt mál, en einlægt hafa þeir fengið skömm i hattinn fyrir. „Fjandinn hafi það, getur maðurinn ekki skorið úr um hvað sé rétt og hvað sé rangt“, segja menn [. . .]. Um leið fyllast menn kvíða og öryggisleysi rétt eins og verið sé að taka af þeim lim: „Svona út með það, á að segja „ég hef áhuga á“ eða „ég hef áhuga fyrir“? Já eða nei!!“

En í umræðu um þetta á Facebook kom fram mjög athyglisvert atriði sem ég hafði ekki leitt hugann að. Mörgum fannst sem sé vera merkingarmunur á áhugi á og áhugi fyrir. Munurinn virðist vera sá að áhugi á sé fremur notað persónulega, um áhugaefni eða áhugasvið – ég hef áhuga á málfræði, ég hef áhuga á fuglum. En áhugi fyrir er fremur notað um eitthvað sem þykir æskilegt og oft notað ópersónulega – ég hef áhuga fyrir að fara til útlanda í sumar, það er áhugi fyrir hittingi á föstudaginn.

Þessi munur kemur mjög skýrt fram þegar tíðni sambandanna ég hef áhuga á/fyrir og það er áhugi á/fyrir er skoðuð á tímarit.is. Í ópersónulega sambandinu það er eru dæmin um áhugi á og áhugi fyrir álíka mörg. En í ég hef eru dæmin um áhuga á 25 sinnum fleiri en um áhuga fyrir. Þótt augljóslega geri ekki allir málnotendur skýran greinarmun á áhugi á og áhugi fyrir er ljóst að talsverður hluti þeirra gerir það. Þótt ég noti sjálfur alltaf áhugi á hef ég alveg tilfinningu fyrir þessum mun þegar ég hugsa málið.

Þetta er gott dæmi um það hvernig vanhugsuð barátta gegn tilbrigðum í máli getur verið til bölvunar. Þarna virðist málið vera að koma sér upp ákveðnum greinarmun – leitast við að láta mun í merkingu koma fram með notkun mismunandi forsetninga. Það hlýtur að teljast jákvætt að málið geti tjáð ýmis fíngerð merkingarblæbrigði. En með því að kalla áhugi fyrir rangt mál er þessi tilhneiging barin niður og málnotendur ruglaðir í ríminu. Það er ekki málrækt.