Tímabær þingsályktunartillaga – frá 1978

Á Facebook og víðar má iðulega sjá athugasemdir sem benda til þess að fjöldi fólks sé sannfærður um að íslenskan sé að fara í hundana – framsögn sé ábótavant, beygingar brenglaðar, orðaforði fari ört minnkandi og hvers kyns slettur og ensk áhrif vaði uppi. Við þessu er brugðist í tillögu til þingsályktunar þar sem lagt er til að ríkisstjórninni verði falið „að sjá svo um að sjónvarp og útvarp annist kennslu og fræðslu í öllum greinum móðurmálsins“. Í greinargerð er lýst miklum áhyggjum af stöðu íslenskunnar:

„Engum dylst, að íslensk tunga á nú í vök að verjast. Á þetta sérstaklega við um talað mál, framburð og framsögn. Einnig fer orðaforði þorra fólks þverrandi og erlend áhrif hvers konar vaxandi. Engum orðum þarf að fara um lífsnauðsyn þess, að stemma stigu við slíkri óheillaþróun, og snúa við inn á þá braut íslenskrar málhefðar, sem ein verður farin, ef íslensk menning á að lifa og dafna.“

Þessi tillaga er sannarlega tímabær ef marka má þær athugasemdir sem vísað var til í upphafi. En hún liggur reyndar ekki fyrir Alþingi núna. Hún var lögð fram – og samþykkt – árið 1978, fyrir 44 árum. En hún hefði alveg eins getað verið lögð fram fyrir hundrað árum, eða 150 árum. Allan þann tíma hefur sami söngur glumið. Hver kynslóð er sannfærð um að kynslóðirnar á eftir – börn og barnabörn – séu miklu verr máli farnar og miklu kærulausari um málfar sitt en hún sjálf.

Karlarnir sem lögðu fram áðurnefnda tillögu 1978 voru væntanlega búnir að gleyma því að 30-40 árum áður voru foreldrar þeirra, afar og ömmur örugglega alveg jafn hneyksluð á málfari fimmta áratugarins og þeir voru á málfari þess áttunda. Eða kannski ekki búnir að gleyma því – kannski tóku þeir bara ekkert eftir því á þeim tíma, voru ekki að hlusta, eða létu tuðið í fullorðna fólkinu sem vind um eyru þjóta eins og ungu fólki er gjarnt. Þannig hefur það alltaf verið.

Ef viðmiðið um vandað mál er íslenskan eins og við lærðum hana, eins og það er hjá flestum, segir það sig sjálft að litið er á öll frávik frá því viðmiði, allar breytingar á málinu, sem hnignun – eins og viðhorf margra sem skrifa hneykslunarpósta á Facebook virðist vera. En af því viðhorfi leiðir jafnframt að málinu hefur alltaf verið að hnigna. Ef það væri rétt mætti búast við að það væri fyrir löngu hætt að þjóna hlutverki sínu sem helsta samskiptatæki fólks. En þannig er það ekki.

Við verðum að leyfa málinu að leika lausum hala – leyfa því að breytast með samfélaginu og þjóna því. Með því er ekki verið að leggja blessun yfir kæruleysi í meðferð málsins eða hvers kyns frávik frá málhefð. Alls ekki. En það er mikilvægt að horfa á heildarmyndina í stað þess að hengja sig í einstök atriði sem engu máli skipta fyrir framtíð málsins. Það þarf að búa börnum á máltökuskeiði sem auðugast málumhverfi og skólakerfið þarf að ýta undir frjóa og skapandi málnotkun. Þannig stuðlum við að endurnýjun og endurnæringu íslenskunnar.